Það var heimsviðburður þegar forsetar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna funduðu hér í Höfða í október 1986. Fyrirvarinn var stuttur því íslensk stjórnvöld fengu aðeins um tíu daga til að undirbúa fundinn.
Fyrirvarinn er öllu lengri fyrir Leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Hörpu í maí. Umfang fundarins er hins vegar miklu stærra og mun hafa meiri áhrif á nánasta umhverfi fundarstaðarins.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir verkefnastjóri í alþjóðamálum hjá forsætisráðuneytinu stýrir undirbúningi fundarins og segir að mörgu að hyggja.
„Þetta er umfangsmesti og stærsti leiðtogafundur sem við höfum nokkurn tíma ráðist í. Enda er hér um að ræða 46 leiðtoga 46 aðildarríkja Evrópuráðsins plús háttsetta fulltrúa Evrópusambandsins og háttsetta embættismenn Evrópuráðsins sjálfs,“ segir Rósa Björk.
Erfitt hefði að halda fund sem þennan án tilkomu Hörpu. Fundurinn fer fram dagana 16. - 17 maí og verða málefni Úkraínu aðalefni fundarins.

„Við munum sjá útkomuskjal hér á fundinum sem verður sterkur stuðningur við Úkraínu,“ segir Rósa Björk. Úkraínumenn hafi meðal annars þrýst á að sett verði á laggirnar eitthvert réttarbótakerfi vegna þess tjóns sem Rússar hefðu valdið með innrásinni.
„Það hafa líka verið umræður á alþjóðavísu um sérstakan dómstól þegar kemur að ófremdarverkum Rússa í Úkraínu. Síðan komi áherslur forsætisráðherra Íslands einnig fram í útgáfuskjalinu. Það er að segja áhersla á að tengja saman mannréttindi og umhverfismál, réttindi barna og jafnréttismálin,“ segir Rósa Björk.
Stór hluti af löggæsluliði landsins kemur að fundinum og liðsauki kemur frá öðrum ríkjum. Þá mæta margir leiðtoganna með sína eigin öryggisverði. Búið er að blokka mikinn fjölda hótelherbergja og búast má við hundruðum ef ekki þúsundum blaðamanna.
Rósa Björk segir lokanir í kring um Hörpu verða með svipuðu sniði og á Menningarnótt. Borgarbúar muni því vissulega verða fundarins varir. Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu hafi lýst áhuga á að sækja fundinn en ekki liggi fyrir hvort hann mæti í eigin persónu eða með fjarfundabúnaði.
„Það skiptir máli fyrir Ísland, það skiptir líka máli fyrir Evrópuráðið sjálft og aðildarríki þess að við séum að halda hér fund sem skiptir máli. Ég myndi segja að þótt verkefnið sé stórt fyrir lítið ríki eins og Ísland munum við geta farið frá því stolt og bein í baki,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir.