Innlent

Leið­toga­fundur Evrópu­ráðs haldinn í Reykja­vík

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Leiðtogafundur Evrópuráðs verður haldinn í Reykjavík á næsta ári.
Leiðtogafundur Evrópuráðs verður haldinn í Reykjavík á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Leiðtogafundur Evrópuráðs verður haldinn á Íslandi í maí á næsta ári. Fjörutíu og sex ríki eiga aðild að ráðinu. Fundurinn verður umfangsmesti leiðtoga-og ráðherrafundur sem haldinn hefur verið hér á landi.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að um sé að ræða fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins frá upphafi. Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu 9. nóvember næstkomandi og mun gegna starfi formennsku í sex mánuði. Leiðtogafundurinn verður haldinn þegar því skeiði líkur, eða í maí 2023.

Ísland hefur tvisvar áður gegnt formennsku í Evrópuráðinu, árin 1955 og 1999. Í formennsku Íslands felst að leiða starf ráðsins, hafa málefnalegt frumkvæði og vera í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðum alþjóðastofnunum. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Ísland taki formennskuhlutverkinu alvarlega, enda sé tekist á við verkefnið á krefjandi tímum. „Evrópuráðið snýst um grunngildi samfélaga okkar; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið,“ segir Katrín. 

„Innrásin í Úkraínu, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar skapa áskoranir fyrir þessi grunngildi og því hefur aldrei verið mikilvægara að leiðtogar Evrópuþjóða endurnýi heitin og séu samtaka um að standa vörð um þessi gildi.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, á blaðamannafundi í Strassborg í morgun.Stjórnarráðið

Með formennskunni mun Ísland leggja áherslu á að efla grunngildi Evrópuráðsins, lýðræði, réttarríkið og mannréttindi, að því sem segir í tilkynningunni. Þar kemur fram að formennskan miði að því að styrkja Evrópuráðið sem sterka og opna alþjóðastofnun sem berst fyrir þessum grundvallargildum.

Þá verður áhersla lögð á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnréttismál. Sérstök menningardagskrá verður gefin út á formennskutímabilinu þar sem íslensk menning, listir og atvinnulíf verður kynnt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×