Innlent

Ríkið hreki leigj­endur úr í­búðum á Suður­nesjum með yfir­boðum

Atli Ísleifsson skrifar
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ástandið á Suðurnesjum vera orðið ógnvænlegt og óbærilegt vegna aukins fjölda hælisleitenda.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ástandið á Suðurnesjum vera orðið ógnvænlegt og óbærilegt vegna aukins fjölda hælisleitenda. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ástandið á Suðurnesjum vera orðið ógnvænlegt og óbærilegt vegna aukins fjölda hælisleitenda, hræðslu og ógnandi umhverfis. Fjöldinn hafi þau áhrif að leigjendur á almennum markaði á Suðurnesjum hrekist úr íbúðum sínum þar sem Vinnumálastofnun yfirbjóði leiguna til að hægt sé að tryggja þeim húsnæði.

Þetta sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók upp málið undir liðnum Störfum þingsins á Alþingi.

Þingmaðurinn sagði aukinn fjölda hælisleitenda kalla á mikinn íbúðakost. „Nú er svo komið að leigusalar á Suðurnesjum eru hættir að endurnýja leigusamninga, eins og þennan hérna, við íbúa sem hafa verið á leigumarkaði í yfir fimmtán ár, eins og þessi einstaklingur sem á þennan samning,“ sagði Ásmundur og flaggaði plaggi í pontu.

„Hann fær ekki framlengingu á leigusamningnum sínum vegna þess að ríkið er búið að yfirborga leiguna. Það er búið að yfirbjóða leiguna á þrjátíu samningum á Ásbrú. Þar sem þrjátíu fjölskyldum er sagt upp leigunni til að koma fyrir útlendingum. Þessum einstaklingi er boðið helmingi minna húsnæði á 140 þúsund krónum á mánuði þar sem er aðgangur að salerni og sameiginlegu eldhúsi.

Erlendir byggingaverktakar sem vinna á höfuðborgarsvæðinu, í Suðurnesbæ og Reykjanesbæ, þeim hefur verið sagt upp blokkinni sem þeir búa í vegna þess að Vinnumálastofnun er búin að yfirbjóða leiguna.

Hér í þessum stól er reglulega talað um að það eigi að koma á leiguþaki í hér þessu landi. Mér hefur stundum dottið í hug að jafnvel styðja þá tillögu. En þegar ríkið er farið að ganga fram með þessum hætti þá nær það ekki nokkurri átt.

Það er þannig suður frá, að ef það losnar íbúð þá eru tugir fjölskyldna sem eru að reyna að fá íbúðir sem hefur þau áhrif að það er alveg sama hvað kompur eru í boði, að leiguverðið fer upp úr öllu valdi. Það ræður enginn orðið við að leigja hús á Suðurnesjum. Og það er ríkið sem gengur þar á undan. Virðulegur forseti, er ekki mál að linni í því máli,“ sagði Ásmundur í ræðu sinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.