Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna í Starmýri í Neskaupstað.Landsbjörg
Níu gistu í fjöldahjálparstöðinni í Egilsbúð í Neskaupstað í nótt. Ákveðið var að rýma mikinn fjölda húsa í bænum vegna snjóflóðanna sem féllu í bænum í gærmorgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum segir að alls hafi 429 manns leitað í Egilsbúð eftir að fjöldahjálparstöð var þar opnuð.
Fjöldahjálparstöðinni í Herðubreið á Seyðisfirði var lokað í gærkvöldi eftir að allir voru farnir. Enginn gisti því þar í nótt en alls komu sextíu gestir þangað í gær.
Allir voru svo farnir úr fjöldahjálparstöðinni í Grunnskólanum á Eskifirði um klukkan 20.30 í gærkvöldi og var henni þá lokað. 75 gestir leituðu í fjöldahjálparstöðina í gær.
Að neðan má sjá myndband af aðgerðum björgunarsveitarfólks í Neskaupstað í gær.
Oddur Freyr Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir í samtali við Vísi að nú sé verið verið að hafa til morgunmat í Egilsbúð fyrir fólkið sem þurfti að rýma.
Hann segir að ekki hafi komið upp nein sérstök vandamál í miðstöðinni og verður þar opið í dag.
Oddur Freyr beinir því sérstaklega til fólks að hafa samband í síma 1717 ef það vantar stuðning eða upplýsingar vegna rýminganna og flóðanna á Austfjörðum.
Þrjú snjóflóð féllu í Neskaupstað í morgun og þá hafa snjóflóð fallið í Mjóafirði og á Reyðarfirði utan byggðar. Íbúi í Neskaupstað segir atburðina erfiða fyrir marga og áminning um mannskæð snjóflóð í bænum fyrir hálfri öld.
Ekkert skólahald verður í leik- og grunnskólum í Neskaupstað, á Eskifirði, og Fáskrúðsfirði á morgun.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.