Innlent

Nem­endur í Versló auka næringar­gildi salts með fisk­beinum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kjartan og Sævar segja starfsmenn fiskbúða fagna því að þurfa ekki að henda beinunum enda um vannýtta auðlind að ræða.
Kjartan og Sævar segja starfsmenn fiskbúða fagna því að þurfa ekki að henda beinunum enda um vannýtta auðlind að ræða. stöð 2

Nemendur við Verzlunarskóla Íslands hafa aukið næringargildi salts með þróun og framleiðslu á salti sem inniheldur næringarefni úr fiskbeinum. Þeir segja starfsmenn fiskbúða fegna að þurfa ekki að henda beinunum enda um vannýtta auðlind að ræða.

Hugmyndin kviknaði í áfanga í frumkvöðlafræði við Verzlunarskóla Íslands en strákana langaði til að þróa vöru þar sem vannýtt auðlind væri í fyrirrúmi. Þar koma fiskbein til sögunnar og datt þeim í hug að nýta næringarefni sem finnast í beinunum í matvælaframleiðslu. Saltið varð fyrir valinu þar sem um er að ræða vöru sem flestir neyta daglega.

„Þetta er í rauninni góð leið til að troða næringarefnum í vöru sem annars væri næringarsnauð, það er eiginlega bara málið,“ sagði Sævar M. Gestsson, nemandi við Verzlunarskólann og framkvæmdastjóri BEIN.

Beinin eru þurrkuð.aðsend

Varan sem þeir hafa nú þróað og framleitt heitir BEIN en ólíkt hefðbundnu sjávarsalti er saltið stútfullt af næringarefnum úr fiskbeinunum á borð við kalíum, sink og fosfór auk þess sem beinin eru um 37 prósent prótein.

Hópurinn fékk vöruna afhenda í gærkvöld. Strákarnir sáu um framleiðslu og þróun hennar auk þess sem þeir hönnuðu umbúðirnar og sjá um alla markaðssetningu.

„Það kemur mér veruleg á óvart hversu vel fólk er að taka í þetta. Fisksalarnir eru rosalega ánægðir að fá einhverja nýtingu á þessu bein því þeir henda mörgum tonnum af beinum á dag,“ segir Sævar.

Strákarnir hönnuðu umbúðirnar sjálfir. aðsend

Vöruna selja þeir á Instagram auk þess sem kynning og sala fer fram á vörumessu í Smáralind á morgun - en strákarnir segja markmiðið að koma vörunni á markað.

„Svo væri það líka skemmtilegt að koma þessu út, erlendis til að vekja athygli á að við þurfum að nýta fiskbeinin. Ég held að nýtingin úti sé ekki jafn góð og hérna heima,“ segir Kjartan Sigurðarson, nemandi við Verzlunarskólann og sölustjóri BEIN.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×