Innlent

Segir engar raun­veru­legar að­gerðir til að draga úr losun á Ís­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Auður segir skjóta skökku við að umhverfisráðherra veiti milljarða styrk til bílaleiga í stað þess að stöðva innflutning á bensín- og dísilbílum.
Auður segir skjóta skökku við að umhverfisráðherra veiti milljarða styrk til bílaleiga í stað þess að stöðva innflutning á bensín- og dísilbílum. Vísir/Sigurjón

Ríkisstjórnin hefur ekki komið fram með neinar aðgerðir til að hamla innkaupum á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Það skjóti skökku við að veita bílaleigum milljarð í styrk til að kaupa rafmagnsbíla í stað þess að stöðva innflutning á bensín- og dísilbílum.

Bílaleigurnar fá milljarð á þessu ári frá umhverfisráðuneytinu til að kaupa nýja rafmagnsbíla. Margir hafa klórað sér í hausnum vegna þessa. 

Málið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum í vikunni, ekki síst vegna breytinga á lögum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til rafbílakaupenda en hann hefur verið lækkaður og er þetta síðasta árið sem endurgreiðslur verða í boði nema lögum verði breytt. Þá stendur endurgreiðslan aðeins 20 þúsund kaupendum til boða og gert er ráð fyrir að hámarksfjöldanum verði náð um mitt ár.

„Okkur finnst svolítið skrítið, að vera að veita svona miklu fé beint til einkafyrirtækja sem fengu heilmikið af styrkjum í sambandi við Covid,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. 

Þetta skjóti skökku við þar sem bæði komi fram í samgöngusáttmálanum og ríkisstjórnarsáttmála að efla eigi almenningssamgöngur, bæta við innviðum fyrir vistvæna samgöngumáta og hvetja til orkuskipta.

„Ríkisstjórnin hefur ekki lagt til neinar raunverulegar aðgerðir sem hamla innkaupum á bensín- og dísilbílum, sem væri þá til dæmis að hækka tolla verulega á þá eða hreinlega taka af skarið með það að innflutningur á bensín- og dísilbílum verði bannaður einhvern tíma fyrir 2030,“ segir Auður. 

Þá sé þessi skortur á aðgerðum sé sérstaklega ógnvekjandi í ljósi svartrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út á mánudag. Þar segir að mannkynið þurfi að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum um meira en helming fyrir árið 2035 ef standast á markmið um að takmarka hlýnun á öldinni við eina og hálfa gráðu. Ríkisstjórnin þurfi að grípa til drastískra aðgerða.

„Þá erum við að tala um að fjölga ekki ferðamönnum, aðgerðir í landbúnaði, aðgerðir í öðrum stórum iðnaði. Það fer ekkert fyrir þeim, engum raunverulegum aðgerðum til að draga úr losun annað en að auka rafmagnsframleiðslu,“ segir Auður. 


Tengdar fréttir

Þarf hraðan sam­drátt til að af­tengja lofts­lags­tíma­sprengju

Mannkynið þarf að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um meira en helming fyrir árið 2035 ef það ætlar sér að takmarka hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráðu á þessari öld. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna líkir loftslagsvandanum við tifandi tímasprengju.

Guð­laugur Þór telur sig van­hæfan og stígur til hliðar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mun víkja sæti þegar fjallað verður um kæru dótturfélags bandarísks loftlagsfyrirtækis á hendur Umhverfisstofnun innan ráðuneytisins. Bjarni Benediktsson mun hlaupa í skarðið fyrir hann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.