Innlent

Hátt í fjórir milljarðar munu búa við vatns­skort eftir tvö ár

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alþjóðlegi vatnsdagurinn er í dag. Hér eru krakkar í Rio de Janeiro í Brasilíu að baða sig í ánni í tilefni dagsins.
Alþjóðlegi vatnsdagurinn er í dag. Hér eru krakkar í Rio de Janeiro í Brasilíu að baða sig í ánni í tilefni dagsins. Getty/Fabio Teixeira

3,5 milljarðar manna munu búa við vatnsskort árið 2025 vegna mengunar ef mannkynið breytir ekki framkomu sinni við vatn. Sérfræðingur segir að Íslendingar, eins og aðrir, þurfi að vernda vatnið sitt betur.

Alþjóðadagur vatnsins er í dag, enda tilefni til að halda upp á þetta lífsnauðsynlega efni. Þrátt fyrir mikilvægi vatns hefur slæm umgengni um það valdið því að allt að 3,5 miljarðar manna muni búa við vatnsskort árið 2025, að stórum hluta vegna mengunar sem gert hefur það ódrykkjarhæft.

Í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum er varað við vampírískri ofnotkun á vatni í heiminum og heimsbúar þurfi að fara að huga verulega að vatnsnotkun.

„Það þarf ekkert rosalega mikið að gerast til þess að vatn mengist,“ segir Eydís Salome Eiríksdóttir, jarðefnafræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.

Greint var frá því á mánudag að mannkynið þurfi að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um meira en helming fyrir árið 2035 ef það ætlar sér að takmarka hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráðu á þessari öld.

Vegna hnattrænnar hlýnunar eru þurrkar farnir að vera algengari í öllum heimsálfum og meira að segja hér á Íslandi, þar sem almennt hefur verið ofgnótt af vatni.

„Það hefur kannski ekki verið mikil vitund meðal Íslendinga um að okkur beri að vernda vatnið okkar, kannski af því við höfum haft svo mikið af því,“ segir Eydís. 

Þar spili verndun jökla stórt hlutverk.

„Í rauninni kannski þurfum við ekki að hafa áhyggjur af íslensku jöklunum á næstu árum en það er alveg fyrirséð og um leið og einn jökull hörfar breytast gríðarlega stór afrennslissvæði,“ segir Eydís. 

„Þetta getur breytt gríðarlega miklu og haft mjög mikil áhrif á grunnvatnsstöðu á Íslandi.“

Hún hvetur fólk að fara út í náttúruna, finna sér lækjarsprænu eða fara út í fjöru og hlusta á vatnið.

„Hlusta á vatnið og pæla svolítið í því og hvað við þurfum að gera til að passa upp á það. Hvort við getum gert bara með því að hreinsa til í kringum okkur, passa að það fari ekki rusl út í vatnið okkar og passa að við séum ekki að henda rusli í ána sem er okkur kær. Og bara njóta þess að vera í náttúrunni.“


Tengdar fréttir

Þarf hraðan sam­drátt til að af­tengja lofts­lags­tíma­sprengju

Mannkynið þarf að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um meira en helming fyrir árið 2035 ef það ætlar sér að takmarka hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráðu á þessari öld. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna líkir loftslagsvandanum við tifandi tímasprengju.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×