Lífið

Sjón sakar höfund Harry Potter um að af­mennska trans­fólk

Kjartan Kjartansson skrifar
JK Rowling er ekki háttskrifuð í bókum Sjóns.
JK Rowling er ekki háttskrifuð í bókum Sjóns. Getty/samsett

Breski rithöfundurinn JK Rowling, sem er þekktust fyrir bækurnar um töfrastrákinn Harry Potter, tekur þátt í að afmennska transfólk kerfisbundið, að sögn íslenska rithöfundarins Sjóns. Rowling hefur farið mikinn um transfólk á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum undanfarin misseri.

Sjón gagnrýndi Rowling í tísti í kvöld og vísar til ummæla sem breski rithöfundurinn lét falla í hlaðvarpsþætti um að tíminn eigi eftir að leiða í ljós hvort að hún hafi rangt fyrir sér um transfólk. Í sama þætti sagðist hún hafa vitað að það ætti eftir að fara illa í aðdáendur bókanna um Harry Potter að hún æði inn í umræðu um réttindi transfólks á sínum tíma.

„JK Rowling getur leyft sér þann munað að segja að „tíminn leiði í ljós hvort ég hafi á röngu að standa“ á meðan transfólk neyðist til þess að búa við aðsteðjandi hættu á að það missi ekki aðeins mannréttindi sín heldur líf sitt vegna þess að heimtufrekt (e. entitled) fólk eins og hún er kerfisbundið að afmennska það,“ tísti Sjón á ensku.

Rowling hefur sætt harðri gagnrýni fyrir afstöðu sína til transfólks og transkvenna sérstaklega. Hún hefur ítrekað gefið í skyn að transkonur séu hættulegar öðrum konum og sagt að transkonur séu ekki konur. Leikararnir sem túlkuðu aðalpersónurnar í kvikmyndunum um Harry Potter eru á meðal þeirra sem hafa lýst sig ósammála Rowling opinberlega.

Stormurinn í kringum Rowling geisar í skugga harðnandi orðræðu um hinsegin fólk víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Í hlaðvarpinu líkti Rowling baráttufólki fyrir réttindum transfólks við svonefndar násugur úr Potter-bókunum, hóp illra seiðkarla og kvenna sem Potter þarf að glíma við.

„Ég er að berjast gegn því sem ég tel öfluga og lævíslega hreyfingu sem hatar konur og sem hefur orðið gríðarlega ágegnt á mjög áhrifamiklum sviðum samfélagsins,“ sagði rithöfundurinn.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.