Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað það er hægt að tjá sig mikið í gegnum hana. Ég elska líka að fylgjast með nýjum línum frá uppáhalds merkjunum mínum.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Í augnablikinu er það Replume dúnúlpa úr Aftur. Hlý og passar við allt.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei í rauninni ekki.
Ég hafði meiri tíma í það áður en ég eignaðist barn. Núna gríp ég oftast bara eitthvað þægilegt.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég myndi segja að stílinn minn sé blanda af vintage og nýjum flíkum en ég reyni oftast að kaupa vistvænt og flíkur sem endast lengi.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Það sem skiptir mig mestu máli núna eru þægindi en það hefur ekki alltaf verið í forgangi.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Instagram, frá fólkinu í kringum mig og umhverfinu.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Það eru alveg nokkrar flíkur sem ég myndi ekki klæðast en það er bara vegna þess að þær eru ekki minn stíll.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Ég labbaði á tískusýningu Yeoman í fyrra þegar ég var ólétt komin átta mánuði á leið og var í bundnum topp og útvíðum buxum með bumbuna úti. Það er mjög eftirminnilegt.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Kaupa minna og velja flíkurnar vel. Oft þegar ég kaupi flík í flýti þá enda ég á að nota hana ekki. Annars bara að fylgja þínu eigin innsæi.