Sport

Hjálpaði til við að bjarga manni úr bíl sem var í ljósum logum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
K.J. Osborn bjargaði mannslífi á dögunum.
K.J. Osborn bjargaði mannslífi á dögunum. Stephen Maturen/Getty Images/Twitter

Það var lukkulegt að K.J. Osborn, 25 ára gamall útherji Minnesota Vikings í NFL-deildinni, hafi farið til Austin, Texas í frí. Hann bjargaði á dögunum karlmanni úr alelda bifreið en lögreglan hefur staðfest að maðurinn hefði látist hefðu Osborn og aðrir vegfarendur ekki komið til bjargar.

Osborn var í Uber-leigubíl þegar hann sá aðra bifreið klessa á. Osborn og þrjú önnur komu ökumanni bílsins til hjálpar. Drógu þau hann út úr bílnum og í skjól en bíllinn varð strax alelda.

„Lögreglan sagði að við hefðum bjargað lífi hans. Hann hefði ekki komist út úr bílnum af sjálfsdáðum,“ sagði Osborn í hlaðvarpsviðtali. Útherjinn sagði jafnframt að ökumaðurinn hefði ekki orðið fyrir alvarlegum meiðslum og að hann ætlaði að heimsækja hann á spítalann.

„Ég er bara þakklátur að hafa verið í aðstöðu til að hjálpa honum ásamt hinum þremur hetjunum. Þetta var ein ótrúlegasta lífsreynsla mín til þessa,“ sagði Osborn einnig í hlaðvarpinu. Þá hefur hann tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum.

„Aðstæður sem mér hefði aldrei í milljón ár dottið í hug að ég yrði hluti af.“

Ásamt því að spila með Minnesota Vikings í NFL-deildinni þá er hinn 25 ára gamli Osborn í meistaranámi. Er hann að læra sakamálaréttarfar [e. criminal justice]. Þegar skórnir fara á hilluna vonast Osborn til að vinna fyrir Alríkislöregluna [FBI] eða bandarísku leyniþjónustuna [US Secret Service].
Fleiri fréttir

Sjá meira


×