Innlent

Himinlifandi yfir því að rostungurinn Þór sé mættur til Íslands

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Rostungurinn Þór kippti sér ekki mikið upp við gesti og gangandi þegar hann spókaði sig á bryggjunni í gær.
Rostungurinn Þór kippti sér ekki mikið upp við gesti og gangandi þegar hann spókaði sig á bryggjunni í gær. Guðlaugur Jón Haraldsson

Rostungurinn sem spókaði sig á flotbryggjunni á Breiðdalsvík í gær heitir Þór og kemur frá Bretlandi. Þarlend dýraverndarsamtök hafa borið kennsl á díla á hreifum hans og greint frá því að um sé að ræða sama rostung og heimsótti Bretland fyrir skömmu. Þar var hann nefndur Þór.

„Að heimsókn Þórs til Bretlands lokinni veltum við fyrir okkur hvort við myndum nokkurn tímann sjá hann framar. Það gleður okkur að tilkynna að hann er nú á Íslandi!“ skrifa dýraverndarsamtökin British Divers Marine Life Rescue á Facebook. Samtökin einsetja sér að bjarga sjávardýrum í neyð.

Samtökin segjast hafa borið kennsl á díla á hreifum rostungsins sem séu á sömu stöðum og á þeim rostungi sem heimsótti Bretland í lok síðasta árs. Nánar tiltekið borgina Scarborough í norðaustur Englandi. Nú virðist sami rostungur staddur á Breiðdalsvík.

Mynd samtakanna British Divers þar sem sömu dílar virðast á sömu stöðum á myndum frá Scarborough og Breiðdalsvík.Facebook

Greint var frá því í gær að rostungurinn hafi spókað sig „pollrólegur“ á flotbryggjunni á Breiðdalsvík. Matvælastofnun bað fólk í kjölfarið að fara varlega í kringum Þór. 

„Hann er pollrólegur og sat á sama stað allan tímann. Mikið aðdráttarafl, fólk hópaðist saman að honum en hann var mjög slakur og rólegur,“ sagði Guðlaugur Jón sem tók myndir af honum á brygjunni.


Tengdar fréttir

„Pollró­­legur“ rostungur vekur lukku á Breið­dals­vík

Rostungur spókaði sig „pollrólegur“ á flotbryggjunni á Breiðdalsvík í dag. Gestir og gangandi fylgdust með dýrinu í dag en að sögn íbúa var rostungurinn slakur og rólegur. Matvælastofnun biður fólk að fara varlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×