Innlent

Átta­tíu flótta­menn flytja í gamla banda­ríska sendi­ráðið

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bandaríska sendiráðið var staðsett við Laufásveg áður en það flutti á Engjateig.
Bandaríska sendiráðið var staðsett við Laufásveg áður en það flutti á Engjateig.

Allt að áttatíu flóttamenn munu búa í húsunum sem áður hýstu sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg næstu tvö árin. Miðast er við að dvalartími einstaklings í húsnæðinu verði sex mánuðir. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en húsið er í eigu félagsins Laxamýri ehf. Ríkið verður með bakhús við Laufásveg 19 og hús á Laufásvegi 21 og 23 á leigu. Vinnumálastofnun sér um reksturinn. 

Fram kemur í tilkynningunni að húsnæðinu mætti líkja við námsmannaíbúðir. Íbúar deila með sér eldhúsi og setustofum. Starfsmaður á vegum Vinnumálastofnunar verður til taks fyrir íbúa húsnæðisins.

„Nýir íbúar hússins munu flytja þangað á þeim tíma sem telst vera dagvinnutími. Utan þess tíma er ekki gert ráð fyrir að umgangur verði meiri en almennt gildir um íbúðir,“ segir í tilkynningunni en rútur hafa ekki heimild til þess að keyra um svæðið og verða ekki notaðar til þess að koma með fólk í húsnæðið eða sækja það. 

Gert er ráð fyrir því að allt að áttatíu einstaklingar geti búið þar að hverju sinni að því gefnu að öllum kröfum um aðbúnað, heilbrigði og hollustuhætti sé fylgt. Gert er ráð fyrir því að dvalartími fólks verði um það bil sex mánuðir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×