Atkvæðagreiðslan stóð yfir í rétt rúmar þrjár klukkustundir. Það voru nánast greidd atkvæði sérstaklega um hverja einustu grein, stundum með nafnakalli, þar sem fjöldi þingmanna gerði grein fyrir atkvæði sínu.
Það hafa verið miklar tilfinningar í þessu umdeilda máli, og hér á eftir sjáum við meðal annars þegar Þórunni Sveinbjarnardóttur þingmanni Samfylkingarinnar var nóg boðið undir ræðu dómsmálaráðherra og strunsaði úr þingsal og skellti hurðinni með miklum hvelli á eftir sér.

„Velsældin getur gert fólk svo forréttindablint að það sér ekki mannréttindabrotin, það les ekki umsagnirnar, það hlustar ekki, það heyrir ekki. Það vill ekki vita í hvaða heimi það býr,“ sagði Þórunn.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hæddi Viðreisn fyrir að sækja stefnu sína til Evrópusambandsins og uppskar frammíkall frá Hönnu Katrínu Friðriksson þingflokksformanni flokksins.
„Það sama á við um Samfylkinguna … - Frammíkall: Reyndu nú einu sinni að fara með rétt mál - það sama á við um Samfylkinguna, virðulegur forseti, sem segist vera eldrauð gegn þessu máli. En það veit svo sem enginn hvert þau stefna lengur í þessum málum frekar en öðrum,“ sagði Jón en undir þessum orðum hans rauk Þórunn Sveinbjarnardóttir á dyr og skellti hurðinni svo fast á eftir þér að það glumdi í þingsalnum.
Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir þingmaður Pírata hefur farið framarlega í andstöðunni við frumvarpið. Hún kom oft upp við atkvæðagreiðslu um einstakar greinar og sagði þetta meðal annars um 6. Greinina.
„Þetta er bara algerlega óúthugsað eins og annað í þessu frumvarpi. Ég segi nei.“

Óttast um afdrif flóttamanna sem fá synjun
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur varið frumvarpið sem talsmaður meirihluta nefndarinnar. Hún sagði þetta um 6. greinina.
„Í þessum tilfellum er um að ræða aðila sem hafa fengið synjun. Ber þar af leiðandi að víkja brott af landinu.“
Lenya Rún Taha Karim þingmaður Pírata var ekki á sama máli.
„Aðgerðin sem var beitt gegn Palestínumönnunum fyrir tveimur árum, þar sem þeim var hent út á götuna og komist síðan að því að þetta var ólögmætt; það er verið að lögfesta það núna, þið eruð að samþykkja það núna. Ég segi nei,“ Lenya Rún.

Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar talaði á svipuðum nótum.
„Hér er ríkið að svipta ákveðinn hóp fólks algerlega réttindum á borð við húsnæði, fæði og heilbrigðisþjónustu. Þetta eru bæði vanhugsaðar og óframkvæmanlegar tillögur,“ sagði Logi.
„Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Þetta er alveg án alls vafa dapurlegasta ákvæðið sem hér á að lögfesta í þessari svörtu atkvæðagreiðslu sem fram fer hér í dag,“ sagði Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar.
Þetta var fimmta tilraun ýmist innanríkis- eða dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til að fá fram breytingar á útlendingalögum.
Að lokinni annarri umræðu var það samþykkt með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna og þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar greiddu allir atkvæði gegn því.
Frumvörp fara yfirleitt ekki aftur til nefndar að lokinni annarri umræðu. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar sagt að gera þurfi „ýmsar lagfæringar“ á frumvarpinu og því fer það aftur til nefndar áður en það kemur síðan til þriðju og lokaumræðu. Frumvarpið verður því væntanlega fljótlega að lögum.
Ráðherra segir samþykktina mikinn áfanga
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segist líta á samþykkt frumvarpsins sem mikinn áfanga í málefnum hælisleitenda of flóttafólks. Staðan í málaflokknum væri alvarleg.
„Við sjáum hvernig þetta ár fer af stað. Við vorum með metfjölda flóttafólks í fyrra og við erum komin með sex, sjö hundruð, held ég, nú þegar á þessu ári. Þetta stefnir í að fara umtalsvert fram úr því sem var í fyrra,“ sagði Jón í fréttum Stöðvar 2.
„Við verðum að bregðast við þessu. Þessi löggjöf er þáttur í því og þetta er mikill áfangi.“
Varðandi það að frumvarpið hafi verið kallað ómannúðlegt segist Jón hafa haft orð á því að í frumvarpinu sé skjaldborg slegið um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn. Enginn afsláttur sé gefinn á mannúð í því sambandi.
Hann sagði það þó rétt að frumvarpið muni auka á skilvirkni þess að vísa fólki úr landi sem hefur fengið málsmeðferð hér á landi og fengið synjun hjá Útlendingastofnun.
„Við sjáum ekki ástæðu til að það sé á framfæri skattgreiðenda.“
Jón sagðist ekki óttast að frumvarpið verði til þess að fólk endi allslaust á götunni.
„Alls ekki. Vegna þess að þetta fólk á að fara úr landi innan þrjátíu daga. Ef það er í landinu áfram, þá er það í ólögmætri dvöl og þá verður auðvitað að brottvísa því með einhverjum skilvirkari hætti.“