Innlent

Grímu­klæddur maður skeit á bíl í Kópa­vogi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Eigandi bílsins velti fyrir sér hvaða skilaboð maðurinn væri að senda með athæfinu. 
Eigandi bílsins velti fyrir sér hvaða skilaboð maðurinn væri að senda með athæfinu. 

Vægast sagt undarlegt atvik átti sér stað í Kópavogi rétt eftir miðnætti í gærkvöldi. Maður gekk upp að bíl á Álfhólsvegi, virti hann fyrir sér og gekk í burtu. Stuttu síðar kom maðurinn aftur en lét sér þá ekki nægja að skoða bifreiðina, heldur girti hann niður sig og skeit á húddið. Eigandi bílsins birti myndband af athæfinu og velti fyrir sér hvaða skilaboð væri verið að senda.

„Hvaða skilaboð voru þetta? Skilaboð frá eigandanum uppi, hver veit?“ skrifaði eigandi bílsins sem skitið var á í færslu á Facebook. „Ég er allt of heimskur fyrir svona. Þið verið að koma með skýrari skilaboð til mín,“ sagði hann jafnframt.

Eins og sést á meðfylgjandi myndbandi, sem líklegast er við hæfi að vara við, sést maðurinn ganga hinn rólegasti að bílnum, með að því er virðist einhverskonar grímu á andlitinu, virða fyrir sér bílinn nokkra stund áður en hann girðir niður um sig og lætur gossa á húddið.

Maðurinn var með klósettpappír meðferðis en virðist ekki nota hann heldur hendir á stéttina. Því næst girðir hann aftur niður um sig áður en hann tók á rás út í nóttina.

Eigandi bílsins óskaði eftir því að nágrannar hans í hverfinu skoðuðu eftirlitsmyndavélar og hefðu samband ef þeir kynnu deili á manninum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×