Innlent

Anna­samur sólar­hringur hjá Land­helgis­gæslunni

Árni Sæberg skrifar
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur komið þremur veikum einstaklingum á Landspítalann síðastliðinn sólarhring. Myndin er úr safni.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur komið þremur veikum einstaklingum á Landspítalann síðastliðinn sólarhring. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur sinnt þremur útköllum síðastliðinn sólarhring. Slæmt veður hefur komið í veg fyrir að flugvélar hafi getað sinnt sjúkraflugi frá Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum.

Síðdegis í gær var þyrlusveitin kölluð til vegna þess að ekki var hægt að flytja veikan einstakling á sjúkrahús í Reykjavík vegna veðurs. Verkefnið heppnaðist vel þrátt fyrir að flugið austur hafi verið krefjandi sökum veðurs og vinda, að því er segir í færslu Landhelgisgæslunnar á Facebook.

Fyrir skömmu var þyrlunni svo lent með veikan einstakling um borð. Þyrlan hafði verið kölluð til Vestmannaeyja til þess að sinna sjúkraflutningi vegna slæmra veðurskilyrða.

Það útkall barst fljótlega eftir að áhöfn þyrlunnar hafði lokið við að koma öðrum manni frá Ísafirði á sjúkrahús í Reykjavík vegna veikinda. Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, hafa bæði útköllin í dag gengið vel þrátt fyrir slæmt veður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.