Síðdegis í gær var þyrlusveitin kölluð til vegna þess að ekki var hægt að flytja veikan einstakling á sjúkrahús í Reykjavík vegna veðurs. Verkefnið heppnaðist vel þrátt fyrir að flugið austur hafi verið krefjandi sökum veðurs og vinda, að því er segir í færslu Landhelgisgæslunnar á Facebook.
Fyrir skömmu var þyrlunni svo lent með veikan einstakling um borð. Þyrlan hafði verið kölluð til Vestmannaeyja til þess að sinna sjúkraflutningi vegna slæmra veðurskilyrða.
Það útkall barst fljótlega eftir að áhöfn þyrlunnar hafði lokið við að koma öðrum manni frá Ísafirði á sjúkrahús í Reykjavík vegna veikinda. Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, hafa bæði útköllin í dag gengið vel þrátt fyrir slæmt veður.