Innlent

„Vísindamenn læra ekkert um business“

Snorri Másson skrifar

Íslendingar voru tuttugu árum eftir á í að grípa til markvissra aðgerða til að stuðla markvisst að því að vísindamenn kæmu niðurstöðum rannsókna sinna í arðbæran eða hagnýtan farveg, að sögn Einars Mäntylä framkvæmdastjóra Auðnu tæknitorgs, sem stofnað var 2018. Vísindamenn læra að hans sögn „ekkert um business“ - því þarf að kenna hann.

„Ég myndi segja að okkar hlutverk sé að hjálpa vísindamönnum að taka sínar rannsóknir og rannsóknarniðurstöður áfram þannig að þær skili samfélagslegum áhrifum. Samfélagsleg áhrif vísinda gerast ekki af sjálfum sér. Það er ekki nóg að birta grein sem bara aðrir vísindamenn lesa,“ segir Einar í Íslandi í dag.

Viðtalið við Einar má sjá í innslaginu hér að ofan og það hefst á tólftu mínútu.

Einar Mäntylä hefur áratugareynslu af nýsköpun, var á meðal stofnenda ORF líftækni ehf. í kringum aldamót og leiðir nú Auðnu - tæknitorg.Vísir/Bjarni

Einar segir að vinna þurfi markvisst að því að koma rannsóknunum í nýja og hagnýta mynd, eins og til dæmis viðskiptatækifæri. „Þessu var verulega ábótavant og við vorum svona tuttugu árum á eftir öðrum þjóðum í þessu,“ segir Einar - svona var þetta áður en Auðna var sett á laggirnar

Á vegum Auðnu eru vísindamenn teknir í þjálfunarbúðir þar sem þeim er gert kleift að setja sínar rannsóknir inn í annað umhverfi. Eftir þrjá daga á slíku námskeiði hafi vísindamenn gengið út og séð alveg nýja hlið á eigin vinnu. Tækifærin opnast.

„Vísindamenn læra ekkert um business. Og við finnum það oft að við erum í svona brúarstarfi eins konar túlkar á milli vísindamanna og viðskiptaaðila og iðnaðarins,“ segir Einar.

Enginn vafi er í huga Einars að Íslendingar eigi enn eftir að sjá meiri háttar kraftaverk á vettvangi nýsköpunar. Gæði vísindastarfs séu einfaldlega með þeim hætti. Aðeins þurfi að leysa þau úr læðingi með því að brúa bilið á milli vísindanna og fólks sem geti látið hlutina vaxa.

Hugverk eru það verðmætasta í verðmati fyrirtækja í dag að sögn Einars. Áður hafi það verið tæki og húsnæði sem hafi verið helstu verðmætin, en í dag séu 90% verðmæta í óáþreifanlegum þáttum; fólki og þekkingu. 

Enginn vafi er í huga Einars að Íslendingar eigi enn eftir að sjá meiri háttar kraftaverk á vettvangi nýsköpunar. Gæði vísindastarfs séu einfaldlega með þeim hætti.Vísir/Bjarni

Mörg hundruð milljarðar

Nýsköpunarfyrirtæki eru farin að skipta verulegu máli í íslensku atvinnulífi.  Össur, Marel og CCP eru oft nefnd enda hafa þau sannarlega sannað sig; en síðan eru aðeins minni nýlegri félög sem eru samt mörg orðin nokkuð stór, SideKick Health, Vox Medica, ORF líftækni, CarbFix og svo framvegis. 

Síðan eru það nýleg félög sem eru orðin talsvert umsvifamikil, Kerecis er í sókn í Bandaríkjunum og er samkvæmt nýlegu mati um 85 milljarða króna virði, og Controlant, sem bjó meðal annars til flutningsgræjur fyrir bóluefni Pfizer, er að minnsta kosti margra tuga milljarða króna virði. 

Þetta er því spurning um mörghundruð milljarða króna í íslensku hagkerfið.


Tengdar fréttir

Fólk farið að nota OpenAl gervi­greindina í sam­tals­með­ferðum

Á dögunum sagði Stöð 2 frá því að fyrir forvitnissakir hefði gervigreind verið notuð til að semja stutta kynningu fyrir Ísland í dag. Vísað var í forritið ChatGPT á vegum fyrirtækisins OpenAI sem á síðastliðnum vikum hefur vægast sagt verið að slá í gegn víðs vegar um heiminn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×