Innlent

„Það kom til­tölu­lega fljótt í ljós að það var enginn hjart­sláttur“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Í myndskeiðinu deila ræða hjónin hvað tók við eftir fæðinguna og val þeirra um að hafa kistulagningu og jarðarför – og hvað það skipti þau miklu máli, 25 árum seinna, að Sturla Karl sé enn hluti af fjölskyldunni.
Í myndskeiðinu deila ræða hjónin hvað tók við eftir fæðinguna og val þeirra um að hafa kistulagningu og jarðarför – og hvað það skipti þau miklu máli, 25 árum seinna, að Sturla Karl sé enn hluti af fjölskyldunni. Skjáskot/Youtube

„Sorg, allvega eins og ég upplifi hana, fer svo mikið í að hugsa um hvað hefði orðið. Hvað tækifæri við áttum varðandi framtíðina. Og þó við hefðum aldrei fengið að halda á honum lifandi, þá vorum við byrjuð að plana, við vorum búin að sjá fyrir okkur í höfðinu hvernig lífið yrði. Alls konar væntingar og vonir, sem urðu svo ekki,“ segir Jón Þór Sturluson.

Jón Þór og eiginkona hans, Anna Sigrún Baldursdóttir gengu í gegnum erfitt sorgarferli þegar sonur þeirra Sturla Karl lést í móðurkviði á 32. viku meðgöngu.

Jón Þór og Anna eru á meðal þeirra foreldra sem deila reynslusögu sinni í röð myndskeiða á vegum Gleym mér ei – styrktarfélags til stuðnings við foreldra sem missa barn á meðgöngu og í/eftir fæðingu.

Í myndskeiðinu ræða hjónin hvað tók við eftir fæðinguna og val þeirra um að hafa kistulagningu og jarðarför – og hvað það skipti þau miklu máli, 25 árum seinna, að Sturla Karl sé enn hluti af fjölskyldunni.

Enginn hjartsláttur

„Þetta var auðvitað mjög dramatísk reynsla. Við vorum stödd í heimabæ okkar, á svokölluðum Dönskum dögum í Stykkishólmi þegar Anna fer að finna fyrir rosalega vondri líðan í móðurkviði. Við drífum okkur á sjúkrahúsið. Það er mjög skrítið að rifja það upp, því fagfólkið þar, það náttúrulega vissi hvað var að gerast. Það sem við óttuðumst en vonuðum að væri ekki satt. Það kom tiltölulega fljótt í ljós að það var enginn hjartsláttur. Ómskoðun sýndi enga hreyfingu. Þar fengum við þær upplýsingar að hann væri dáinn,“ segir Jón Þór.

Þetta var á 32. viku meðgöngunnar.

„Svo tók náttúrulega svolítinn tíma að koma fæðingunni af stað, en það var strax farið í það. Og svo fæddist hann, og við vorum þarna,“ rifjar Anna upp. Þau hjónin áttu stund með syni sínum í kjölfarið þar sem þau tóku myndir og fengu fótspor, hárlokk og handaför til minningar.

„Ég vann sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæslunni á þessum tíma og ég man eftir því að það kom einn hjúkrunarfræðingur sem starfaði með mér þar og hefur alltaf skipað svolítið mikinn sess í hjarta mínu,“ segir Anna. Þau Jón Þór láta afar vel af þjónustunni sem þau fengu á spítalanum, frá ljósmæðrum og félagsráðgjafa. Presturinn á spítalanum reyndist þeim einnig afskaplega vel.

„Það verður að viðurkennast að ég er ekki trúaðasti maður á landinu. En það situr í mér hvað þessi stofnun hjálpaði okkur. Á þessum tíma var það kannski svona arðbærasta hjálpartólið, kirkjan,“ segir Jón Þór.

Allt telur

Þau  segjast hafa fundið fyrir því strax að þau vildu hafa kistulagningu og jarðarför, og fjölskylda og vinir reyndust þeim þá afar vel. Sturla Karl fékk leiði við hlið ömmu sinnar og afa og fjölskyldan heimsækir leiðið reglulega. Þá segir Anna að Sturla Karl hafi alltaf verið talinn hluti af fjölskyldunni.

„Þegar við urðum fimmtug gáfu foreldrar mínir og systur okkur svanafjölskyldu. Þá voru það auðvitað tveir svanir og þrír ungar. Þetta bara skiptir svo miklu máli. 25 árum seinna. Þetta telur allt inn.“

Jón Þór og Anna bjuggu í Svíþjóð þegar næsta barn þeirra fæddist, sem er eldri dóttir þeirra. Anna segir það hafa skipt miklu máli á sínum tíma að starfsfólkið í mæðraeftirlitinu vissi sögu þeirra og sýndi þeim mikinn skilning.

„Ég hefði getað mætt þar á hverjum degi í mæðraeftirlit eða sónar, hvað sem ég vildi, ég mátti alltaf koma, bara alltaf. Það var alltaf opið hús. Mér fannst það frábært,“ segir hún og bætir við að upplifunin hafi verið svipuð þegar yngri dóttir þeirra fæddist á Íslandi.

„Þær hjálpa okkur, af því að hann er svo mikill hluti af þeim, þó þær hafi aldrei upplifað hann öðruvísi en í gegnum okkur. Þannig að það er bara æðislegt. “

Hér má finna fleiri myndskeið á vegum Gleym mér ei þar sem foreldrar deila sögu sinni af barnsmissi í fæðingu eða á meðgöngu.

Vilja að minning barna sinna lifi

Gleym mér ei styrktarfélag fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli. Félagið var stofnað árið 2013 af Önnu Lísu Björnsdóttur, Hrafnhildi Hafsteinsdóttur og Þórunni Pálsdóttur. Reynsla af missi á meðgöngu leiddi þær saman með það að markmiði að styðja fjölskyldur sem standa í þessum erfiðu sporum.

Nú þegar 10 ár eru liðin frá stofnun félagsins verður efnt til ráðstefnu um missi í barneignarferlinu. Ráðstefnan er ætluð heilbrigðisstarfsfólki og haldin í samstarfi við Háskóla Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og Ljósmæðrafélag Íslands. Félagið vill leggja sitt af mörkum til forvarnastarfs ásamt því að auka þekkingu og skilning þeirra fagaðila og starfsfólks sem annast fjölskyldur sem missa á meðgöngu, í fæðingu og á fyrstu mánuðum lífs.

Myndskeiðin þar sem foreldrar deila sögum sínum voru tekin upp á síðasta ári og birt nú á dögunum. Að sögn Ingunnar Sifjar Höskuldsdóttur hjá Gleym mér ei er tilgangur myndskeiðanna tvíþættur.

„Í fyrsta lagi hefur það sýnt sig að reynslusögur annarra foreldra hjálpa hvað mest þegar fólk stendur frammi fyrir því verkefni að læra að lifa með missi barns. Það gefur von og styrk að spegla sig í tilfinningum annarra og eignast fyrirmyndir í því sem framundan er. Þessar sögur hjálpa að auki oft foreldrum af fyrri kynslóðum sem fengu ekki að vinna úr missinum á sínum tíma. Í öðru lagi er mikilvægt að félagið vinni að því að auka rýmið í samfélaginu fyrir sorgina sem fylgir missi eins og þessum. Skilningur þeirra sem ekki hafa staðið í þessum sporum er mikilvægur og dýrmætur. Við trúum því að sorg sem fær það pláss sem hún þarf fái miklu frekar heilbrigða úrvinnslu.“

Ingunn segir Gleym mér ei hafa notið mikils stuðnings og velvildar alveg frá fyrsta degi.

„Það hefur alltaf gengið vel að fá fólkið okkar til þess að deila reynslu sinni og við gerð myndbandanna var engin undantekning þar á. Flestum foreldrum er afar mikilvægt að minning barna þeirra lifi og það að deila sögunum þeirra á þennan hátt er einn þáttur í því.“

Heimasíða Gleym mér ei.

Facebooksíða Gley mér ei.

Instagramsíða Gley mér ei.


Tengdar fréttir

„Mér fannst þetta einhvern veginn breyta í mér erfðaefninu“

„Mér fannst einhver veginn eins og við kæmust aldrei í gengum þessa nótt. Fyrstu mínúturnar og klukkutímana þá er maður er bara einhvern veginn að reyna að lifa af,“ segir Freyr Eyjólfsson. Freyr og Hólmfríður Anna Baldursdóttir eiginkona hans upplifðu gífurlegt áfall þegar sonur þeirra Eldar fæddist andvana, á 34. viku meðgöngu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×