Innlent

Efling þarf að skila greinargerð á föstudaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sólveig Anna ásamt Daníel lögmanni Eflingar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Sólveig Anna ásamt Daníel lögmanni Eflingar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vísir/Lillý

Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í morgun að Efling fengi til föstudags til að skila greinargerð í deilu félagsins við ríkissáttasemjara um hvort félaginu sé skylt að afhenda félagatal sitt vegna miðlunartillögu sáttasemjara. Fyrirtaka í málinu fór fram í héraðsdómi eftir hádegið.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fimmtudaginn 26. janúar fram miðlunartillögu í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Tillagan var lögð fram á meðan atkvæðagreiðslu um þrjú hundrað félagsmanna Eflingar á sjö Íslandshótelum á höfuðborgarsvæðinu stendur. Hún sneri að því að allir félagsmenn Eflingar fái að kjósa um samning sem er samhljóða þeim sem Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér.

Aðalsteinn taldi deilu aðila í slíkum hnút að rétt væri að félagsmenn Eflingar fengu að segja sinn hug. Taldi hann sig hafa til þess fulla lagaheimild. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur Aðalstein hafa brotið lög með tillögunni enda hafi hann ekki ráðgast við formann Eflingar í aðdraganda þess að tillagan var lögð fram.

Sáttasemjari hefur kallað eftir félagatalinu frá Eflingu til að atkvæðagreiðsla geti farið fram meðal félagsmanna. Efling neitar að afhenda listann og ákvað sáttasemjari því að fara með málið fyrir dómstóla. Þar fékk það flýtimeðferð og var á dagskrá nú á öðrum tímanum.

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður Eflingar, hafnaði kröfunni fyrir hönd Eflingar í dag og óskaði eftir tveggja vikna frest til að skila greinargerð og gögnum í málinu. Andri Árnason, lögmaður ríkissáttasemjara í deilunni, mótmælti beiðninni og sagði frestinn of langan. Kallaði hann eftir því að málið yrði flutt í vikunni.

Fór svo að Efling þarf að skila greinargerð á föstudaginn og verður málið flutt sama dag. Greinargerð verði skilað að morgni og málflutningur fari fram eftir hádegið.

Atkvæðagreiðslu um verkfall tæplega þrjú hundruð félagsmanna Eflingar sem starfa á sjö hótelum Íslandshótela á höfuðborgarsvæðinu lýkur í dag. Von er á niðurstöðu um kvöldmatarleytið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.