Innlent

Beit lögreglumann þegar afskipti voru höfð af honum

Eiður Þór Árnason skrifar
Nokkuð var um að vera í miðborginni í gærkvöld og nótt. 
Nokkuð var um að vera í miðborginni í gærkvöld og nótt.  vísir/vilhelm

Einstaklingur var handtekinn grunaður um hótanir og líkamsárás í Hlíðum í Reykjavík. Beit sá lögreglumann þegar afskipti voru höfð af honum, af því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Einstaklingurinn var í kjölfarið vistaður í fangageymslu í tengslum við rannsókn málsins.

Nokkur fjöldi mála kom inn á borð lögreglu í gærkvöld og nótt en laganna verðir fóru meðal annars í eftirlit á nokkra veitinga- og skemmtistaði í miðborg Reykjavíkur. Á einn staður von á kæru eftir að hafa nýtt sér þjónustu réttindalauss dyravarðar.

Tilkynnt var um hugsanlegan eld í bílastæðahúsi í miðborginni en sú tilkynning reyndist ekki á rökum reist þegar upp var staðið.

Ók á gangandi vegfaranda

Að sögn lögreglu var ekið á gangandi vegfaranda í miðborginni og var ökumaður bifreiðarinnar handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Meiðsli eru sögð minniháttar en sá slasaði var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Sömuleiðis var annar einstaklingur fluttur á slysadeild eftir að hann féll af rafhlaupahjóli.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslunum í Múlum auk Háaleitis- og Bústaðahverfi. Í báðum tilvikum voru hinir grunuðu látnir lausir að lokinni skýrslutöku.

Að venju var einnig nokkuð um að ökumenn væru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna eða án ökuréttinda. Þá voru skráningarmerki tekin af nokkrum bifreiðum vegna vanrækslu á aðalskoðun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×