Innlent

Skiljanlegt í ljósi sögunnar að Þjóðverjar hafi tekið sinn tíma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fundi þeirra í dag.
Frá fundi þeirra í dag. Getty/Abdulhamid Hosbas

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir skiljanlegt í ljósi sögunnar að Þjóðverjar hafi tekið sér tíma í að ákveða að senda Úkraínumönnum þungavopn.

Hún átti fund með Olaf Scholz kanslara í Berlín í dag skömmu eftir að hann greindi þýska þinginu frá ákvörðunum sinni um að senda Leopard skriðdreka til Úkraínu og heimila öðrum þjóðum að gera það einnig.

Á sameiginlegum fréttamannafundi Olafs og Katrínar var hún spurð hvort hún óttaðist að þessi ákvörðun Þjóðverja myndi stigmagna stríðið í Úkraínu.

„Auðvitað erum við öll með áhyggjur af því hvert framhaldið er í þessu stríði. Það er engin friðsamleg lausn í sjónmáli. Það eru engir slíkir kostir á borðinu sem er auðvitað mjög dapurlegt, og nú hefur stríðið staðið í nærri því ár. Ég tók það líka fram að þessi ákvörðun er tekin að ígrunduðu ráði hjá Þjóðverjum og í nánu samráði við þeirra bandalagsþjóðir, okkar bandalagsþjóðir. Ég skildi það vel að þeir hefðu gefið sér þennan tíma í þessa ákvörðun, því hún er fyrir Þýskaland töluvert stór,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.

Olaf Scholz staðfesti á fréttamannafundinum að hann myndi sækja heim leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí. Fundurinn væri að hans mati mjög mikilvægur.

Þá var Katrín spurð að því á fundinum hvort Ísland hygðist ganga í Evrópusambandið. Katrín sagði það ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar en ítrekaði mikilvægi sambands Íslands við ríki Evrópu sem hún liti á sem nánustu vini Íslendinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×