Innlent

HÍ vantar milljarð til við­bótar á þessu ári til að ná endum saman

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir skólann vanta hátt í milljarð á þessu ári til að ná endum saman. Skólinn hefur þurft að skera niður á ýmsum sviðum, meðal annars kennslu, vegna fjárskorts.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir skólann vanta hátt í milljarð á þessu ári til að ná endum saman. Skólinn hefur þurft að skera niður á ýmsum sviðum, meðal annars kennslu, vegna fjárskorts. Vísir/Ívar Fannar

Háskóli Íslands hefur þurft að skera niður kennslu vegna fjárskorts en skólann vantar milljarð til viðbótar á þessu ári til að ná endum saman. Staðan er sérstaklega slæm hjá Heilbrigðisvísindasviði og Menntavísindasviði og enn meiri niðurskurður í vændum á næsta ári verði ekki gripið til aðgerða.

Háskóli Íslands hefur frá upphafi skólaárs þurft að draga úr ýmissi grunnþjónustu vegna fjárskorts, sem er meðal annars tilkomin vegna fækkunar nemenda síðan samkomutakmörkunum var létt eftir Covid-faraldurinn.

„Við þurftum að fara í aðgerðir til að geta haldið starfinu áfram með eins eðlilegum hætti og mögulegt er,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

„Við erum ekki í góðum málum. Við höfum verið að leggja upp áætlun fyrir þetta ár og við sjáum að það vantar allt að milljarð til að endar nái saman.“

Fræðasviðin séu sum í sérstaklega slæmum málum.

„Það vantar fimm hundruð milljónir upp á að endar nái saman þar. Heilbrigðisvísindasvið stendur eiginlega verst og það er einmitt verið að kalla eftir fleiri nemendum inn í heilbrigðisvísindin og það þarf virkilega að efla það. Við höfum átt í samtali við stjórnvöld um það. Þar er hallinn upp á 240 milljónir,“ segir Jón Atli. 

„Það eru aðgerðir þar í gangi og verið að ganga á uppsafnaðan afgang frá fyrri árum. Síðan er Menntavísindasvið, þar sem nemendum hefur reyndar fjölgað á síðustu árum, sem stendur ekki vel.“

Útlitið sé svart fyrir næsta ár verði engu breytt.

„Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur, ekki bara af þessu ári heldur 2024, vegna þess í fjármálaáætlun eins og hún er núna er verið að tala um enn frekari niðurskurð. Held ég upp á 2,2 prósent fyrir Háskóla Íslands. Þetta gildir yfir allt kerfið. Svo við þurfum að snúa bökum saman og efla fjármögnun háskólastigsins.“


Tengdar fréttir

Nám í tölvu­leikja­gerð og net­öryggi í kortunum

Tuttugu og fimm samstarfsverkefni háskóla landsins fá styrki upp á samtals 1,2 milljarða króna. Þetta tilkynnti háskólaráðherra í morgun og segir hann mikla möguleika liggja í verkefnunum á borð við stofnun náms í tölvuleikjagerð og meistaranámi þvert á skóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×