Innlent

Réðst á og kýldi starfs­mann 66°Norður

Bjarki Sigurðsson skrifar
Árásin átti sér stað í verslun 66°Norður í Miðhrauni í Garðabæ.
Árásin átti sér stað í verslun 66°Norður í Miðhrauni í Garðabæ. 66°Norður

Ráðist var á starfsmann verslunar 66°Norður í Miðhrauni fyrir viku síðan. Árásarmaðurinn hafði reynt að ræna úr versluninni. Forstjórinn segir starfsmenn hafa gert allt rétt miðað við aðstæður og þakkar lögreglunni fyrir fagleg vinnubrögð. 

Það var að morgni þriðjudagsins 17. janúar sem ræninginn sótti verslunina heim. Starfsmaður verslunarinnar varð var við að hann ætlaði að stela vörum úr búðinni og stöðvaði hann. Skipti þá engum toga heldur réðst ræninginn á starfsmanninn með hnefana á lofti.

Með áverka eftir árásina

Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir starfsmanninn ekki vera mikið slasaðan en hann sé með áverka. Árásin átti sér stað inni í versluninni. 

„Það er mjög sjaldgæft að það sé veist að starfsfólki en það er gerð tilraun til þjófnaðar því miður allt of oft. Það er í fæstum tilfellum sem það eru einhverjar líkamlegar árásir. Sem betur fer er það ekki algengt,“ segir Helgi. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu var starfsmaðurinn sem um ræðir kýldur af ræningjanum en samstarfsmenn brugðust hárrétt við að mati Helga, aðstoðuðu starfsmanninn og hringdu á lögreglu. Hann segir starfsmenn ekki eiga að leggja sig í hættu til að stöðva þjófa. 

„Þeir eiga ekki að leggja líf sitt og limi í hættu. Það er alveg deginum ljósara. Þeir starfsmenn sem voru á vakt þarna brugðust mjög faglega við og gerðu allt rétt. Höfðu samband við lögreglu, lögreglan kom fljótt og brást við einstaklega faglega. Ég verð að hrósa lögreglunni í Hafnarfirði. Það er okkar reynsla af þeim að þeir eru með mjög fagleg vinnubrögð, bara lögreglan yfirhöfuð,“ segir Helgi. 

Ræninginn verður kærður

Fyrirtækið mun kæra ræningjann sem og starfsmaðurinn sem varð fyrir árásinni. Þá verður starfsmanninum boðin áfallahjálp á kostnað fyrirtækisins. 

„Það eru ákveðnir ferlar sem fara í gang ef eitthvað svona á sér stað. Við tökum þessu mjög alvarlega og lítum á að okkar hlutverk sé að vernda starfsfólkið okkar í hvívetna,“ segir Helgi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×