Innlent

Ó­á­sættan­legt inn­heimtu­hlut­fall dómsekta

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðmundur Björgvin Helgason er ríkisendurskoðandi. 
Guðmundur Björgvin Helgason er ríkisendurskoðandi.  Vísir/Vilhelm

Innheimtuhlutfall dómsekta er óásættanlegt að mati Ríkisendurskoðunar. Stofnunin telur það brýnt að dómsmálaráðuneytið bregðist við lágu hlutfalli og að efnislegri meðferð á skýrslu starfshóps ráðuneytisins verði flýtt. 

Á árunum 2014 til 2018 voru álagðar dómsektir, sem námu 10 milljónum króna eða meira, að heildarfjárhæð tæpir 5,7 milljarðar króna. Í árslok 2021 höfðu aðeins 2,2 prósent af þessum sektum verið greiddar. Þetta kemur fram í niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar.

Þá kemur fram að engin breyting hafi orðið á árangri innheimtu frá árinu 2009. Í millitíðinni hefur dómsmálaráðuneytið þó skipað starfshóp en hópnum var ætlað að endurskoða úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnað. Markmið hópsins var að bæta innheimtuhlutfall. 

Starfshópurinn skilaði skýrslu í árslok 2018 og lagði fram níu tillögur til úrbóta. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur dómsmálaráðuneytið ekki brugðist við þeim með formlegum hætti.

„Ríkisendurskoðun telur brýnt að dómsmálaráðuneyti bregðist við lágu innheimtuhlutfalli dómsekta og hvetur ráðuneytið til að flýta, eins og kostur er, efnislegri meðferð á skýrslu framangreinds starfshóps og taka afstöðu til þeirra tillagna sem þar koma fram því til mikils er að vinna að bæta innheimtuhlutfall dómssekta,“ segir í tilkynningu um úttektina á vef Ríkisendurskoðunar. 

Skýrslu um úttektina má lesa í heild sinni hér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×