Fyrsta beina útsending Idol fór fram á föstudaginn í Idol höllinni. Átta keppendur stigu á svið en aðeins sjö keppendur komust áfram.
Þema kvöldsins var „Þetta er ég“ og spreyttu keppendur sig á lögum sem þeir töldu endurspegla sinn tónlistarstíl. Birgir Örn, betur þekktur sem Biggi, flutti frumsamda lagið Found Each Other en hann hefur verið að semja sína eigin tónlist frá því að hann var unglingur.
„Mig langaði að koma með eitthvað svona gritty, svolítið sexí, eitthvað svona sem yrði tekið eftir. Útaf því ég veit náttúrlega í enda dagsins að ég var kannski ekki sterkasti söngvarinn í keppninni þannig ég reyndi að draga upp einhver önnur spil,“ segir Biggi sem var gestur í Brennslunni í morgun.
Frammistaða Bigga dugði þó ekki til. Það voru Biggi, Saga Matthildur og Þórhildur sem fengu fæst atkvæði í símakosningu þjóðarinnar og að lokum var það Biggi sem var sendur heim. Aðstandendur þáttanna höfðu ráðlagt Bigga frá því að taka frumsamið lag en hann fylgdi eigin sannfæringu og sér ekki eftir neinu.
„Það er engin eftirsjá. Ég kom heim daginn eftir og horfði á þetta og klappaði sjálfum mér á bakið.“
„Svo þegar maður er búinn þá er maður sáttur af því að maður fylgdi hjartanu, fylgdi gut tilfinningunni alla leið og ég skildi allt eftir.“
Þakklátur dómnefndinni fyrir að hafa staðið við bakið á sér
Mikil umræða skapaðist þegar Biggi komst áfram í átta manna úrslitin en Einar Óli Ólafsson var sendur heim. Töldu margir að Biggi hefði komist áfram á kostnað Einars og voru áhorfendur ekki allir sammála þeirri ákvörðun dómnefndar. Biggi segist þakklátur dómnefndinni fyrir það að hafa veðjað á sig.
Sjá einnig: Vonsvikinn en biður tryllta stuðningsmenn að hætta öllu skítkasti
„Í enda dagsins þykir mér bara svolítið vænt um þau öll. Þau stóðu náttúrlega svolítið við bakið á mér í þetta gegnum allt. Það var rosalega mikið gert úr þessu dæmi með mig og Einar Óla. Þau bökkuðu mig svolítið upp og mér þótti rosalega vænt um það. Ég vona bara að þau séu stolt af mér.“
Eftir frammistöðu Bigga á föstudaginn sagði dómarinn Daníel Ágúst að Biggi ætti augljóslega heima á sviðinu og að lagið hans færi ábyggilega í spilun á FM957. Biggi er hvergi nær hættur og segir að fleiri lög séu væntanleg frá honum sem og tónlistarmyndband við lagið Found Each Other.
„Ég er ekkert að fara að stoppa hérna. Það tekur eitthvað annað við og bara meira en nóg.“
Hér að neðan má heyra viðtalið við Bigga í heild sinni.