Innlent

„Við verðum aldrei ánægð nema við fáum að vera öll saman“

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Fastagestir í Vin, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, segja áfangasigur hafa unnist í gær þegar ákveðið var að halda starfseminni áfram út árið. Þakklæti var efst í huga gestanna þegar fréttastofa leit við í Vin í dag.

Tilkynnt var í desember að starfsemi Vinjar yrði lögð niður í sparnaðarskyni. Lokunin var gagnrýnd harðlega, meðal annars úr hópi fastagesta sem margir sækja sinn eina félagsskap til Vinjar. En ákveðið var á fundi velferðarráðs í gær að starfseminni yrði haldið óbreyttri í það minnsta út árið.

Fréttastofa leit við í Vin í dag, þar sem ríkti allt annað andrúmsloft en í síðustu heimsókn í desember.

„Það má segja að það hafi verið áfangasigur í gær. Eiginlega myndi ég segja að það væri barátta þessa fólks [fastagestanna] sem skilaði okkur þangað,“ segir Bryndís Christensen, starfskona í Vin. 

„Hugsanlega verðum við flutt á annan stað en við verðum aldrei ánægð nema við fáum að vera öll saman.“

Ekki öfundsvert hlutskipti að ráðskast með annarra örlög

Þakklæti var efst í huga gesta og þá örlaði meira að segja fyrir samúð með ráðamönnum sem tóku hina óheillavænlegu ákvörðun í fyrra.

„Það getur varla verið öfundsvert hlutskipti að standa í sporum þessa fólks. Að þurfa að ráðskast með örlög annarra,“ segir Magnús Hákonarson, fastagestur í Vin.

„Við erum öll þakklát fyrir þennan áfanga og þetta tækifæri sem okkur var gefið,“ segir Ólafur Thorsson, annar fastagestur.


Tengdar fréttir

Hætta við lokun Vinjar í bili

Dagsetrið Vin á Hverfisgötu 47 verður rekið í óbreyttri mynd, í það minnsta út þetta ár. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×