Lífið

Þakka ís­lenskum al­menningi fyrir það að 100 milljónir hafi safnast

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Á þeim sjö árum sem liðið hafa frá því að fyrsti Fokk ofbeldi varningurinn leit dagsins ljós hafa í heildina safnast yfir hundrað milljónir.
Á þeim sjö árum sem liðið hafa frá því að fyrsti Fokk ofbeldi varningurinn leit dagsins ljós hafa í heildina safnast yfir hundrað milljónir. UN Women

Félagasamtökin UN Women á Íslandi hafa náð þeim stóra áfanga að safna yfir 100 milljónum með árlegri herferð sinni Fokk ofbeldi. Síðustu átta ár hafa félagasamtökin staðið fyrir framleiðslu og sölu á hinum ýmsa varningi til styrktar verkefna samtakanna sem miða að því að útrýma kynbundnu ofbeldi.

UN Women á Íslandi hafa árlega kynnt til leiks Fokk ofbeldi vöru sem seld er í takmörkuðu upplagi með það að markmiði að afla fjár til handa verkefnum UN Women. Seldir hafa verið bolir, vettlingar, húfur og armbönd svo fátt eitt sé nefnt. Þjóðþekktir einstaklingar hafa tekið þátt í herferðunum sem vakið hafa mikla athygli ár hvert og er herferðin orðin flaggskip samtakanna hér á landi.

Söguleg herferð 2022

Í haust fór af stað áttunda FO herferð UN Women og voru þá seldir lopavettlingar hannaðir af Védísi Jónsdóttur. Allur ágóði herferðarinnar rann óskiptur í hinsegin sjóð UN Women sem áður var tómur.

Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum og ítrekað þurfti að bæta í upplagið til að anna eftirspurn. Nú hafa þegar safnast um fimmtán milljónir og seljast vettlingarnir ennþá eins og heitar lummur.

„Það er því íslenskum almenningi að þakka að hinsegin sjóðurinn er ekki lengur tómur. Það er einnig íslenskum almenningi að þakka að íslenska landsnefndin sendir hæsta framlag allra landsnefnda til kjarnaverkefna UN Women ár eftir ár. Það er árangur sem við öll getum verið stolt af,“ segir í fréttatilkynningu UN Women.

Fokk ofbeldi herferðir í gegnum tíðina.UN Women

Þakka íslenskum almenningi

Með árangri herferðarinnar árið 2022 náðu félagasamtökin þeim merka áfanga að brjóta 100 milljón króna múrinn með FO herferðum sínum frá árinu 2015.

„Íslenskur almenningur hefur stutt dyggilega við Fokk ofbeldi herferðir UN Women í gegnum tíðina. Það er þeim að þakka að yfir hundrað milljónir íslenskra króna hafa runnið í verkefni UN Women á sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi á heimsvísu.“


Tengdar fréttir

FOKK OFBELDI bolurinn kominn í sölu

Ljósmyndarinn Anna Maggý tók myndina sem prýðir Fokk ofbeldi bolinn í ár. Allur ágóði sölunnar rennur til UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu.

Sala hafin á Fokk Ofbeldi bol með mynd frá Önnu Maggý og ljóði GDRN

UN Women á Íslandi hefja í dag sölu á glænýjum Fokk ofbeldi bol. Allur ágóði rennur til verkefna UN Women til upprætingar á ofbeldi gegn konum og stúlkum í Líbanon. UN Women á Íslandi fengu GDRN til leggja átakinu lið en FO langerma bolurinn skartar ljóði GDRN sem er táknrænt fyrir baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi á bakhlið bolarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×