Fótbolti

Stjórn franska knatt­spyrnu­sam­bandsins setti for­setann til hliðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Noel Le Graet hefur verið forseti franska sambandsins í að verða tólf ár en nú er valdatími hans á enda.
Noel Le Graet hefur verið forseti franska sambandsins í að verða tólf ár en nú er valdatími hans á enda. AP/Christophe Ena

Stjórn franska knattspyrnusambandsins tók þá ákvörðun á fundi sínum í dag að leysa forseta sambandsins tímabundið frá störfum.

Hinn 81 árs gamli Noël Le Graët, sem hefur verið forseti sambandsins frá árinu 2011, er ekki lengur í því starfi. Ástæðan eru ummælin sem hann lét falla um franska knattspyrnugoðið Zinedine Zidane.

Le Graet fékk á sig mikla gagnrýni fyrir að lýsa því yfir að hann myndi aldrei taka við símtal frá Zidane um að verða þjálfari franska landsliðsins. Kylian Mbappe og Hugo Lloris voru meðal þeirra leikmanna sem gagnrýndu forsetann.

Le Graet baðst afsökunar á ummælum sínum og sagði þau hafa verið klaufaleg. Það var hins vegar allt of seint og siðanefnd franska sambandsins skoraði á forsetann að segja af sér.

Zidane varð heimsmeistari með Frökkum 1998 og átti magnaðan feril, lengst af sem einn af allra bestu knattspyrnumönnum heimsins.

Því var spáð að Zidane yrði eftirmaður Didier Deschamps sem þjálfari franska landsliðsins en Deschamps framlengdi samning sinn til ársins 2026 á dögunum.

Þegar gengið var á Le Graet með hvort hann hafi rætt við Zidane þá var hann ekkert nema stælar og gerði lítið úr einni stærstu fótboltastjörnu Frakka fyrr og síðar.

Stjórnin tók þessa risaákvörðun í dag og varaforsetinn Philippe Diallo mun sinna forsetastarfinu til að byrja með. Það er ekki ljóst hvort eða hvenær Noël Le Graët fái að setjast aftur í forsetastólinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×