Starfsfólk staðarins var í óða önn að steikja vængi og tilheyrandi og töluverður fjöldi viðskiptavina beið spenntur eftir því að fá mat til að taka með um klukkan 20 á laugardagskvöld. Einn þeirra hefur verið æstari en aðrir og þegar hann fékk ekki þær franskar sem hann hafði pantað með vængjunum fékk hann brjálæðiskast.
Einn viðskiptavinanna segir í samtali við Vísi að hann og aðrir viðskiptavinir hafi orðið skelkaðir þegar maðurinn, sem virtist á fertugsaldri, hóf að öskra á starfsfólk. Þá hafi maðurinn horft með ógnandi hætti á viðskiptavini og strunsað um staðinn.
„Allir þeir sem voru að bíða eftir mat voru komnir út í horn þétt saman,“ segir viðskiptavinurinn.
Tvær pantanir af 300 mistókust
Justin Shouse, körfuboltakempa og eigandi Just Wingin It, staðfestir í samtali við Vísi að maður hafi misst stjórn á sér á staðnum á laugardagskvöld. Hann var ekki sjálfur á staðnum en hefur rætt við þann sem stýrði vaktinni og fengið lýsingu á atburðarásinni.

Hann segir mikið hafa verið að gera á staðnum og þrjú hundruð pantanir hafi verið afgreiddar. Mistök hafi verið gerð við afgreiðslu tveggja þeirra. „Önnur mistökin vöktu mjög hávær viðbrögð en þau snerust bara um franskar,“ segir hann.
Justin segir að brjálæðiskast mannsins hafi þó ekki varað lengi og starfsfólk staðarins hafi tekið á því á fagmannlegan hátt. Mistökin hafi verið leiðrétt á örfáum mínútum og maðurinn farið sína leið. Þá hafi verið rætt við viðskiptavini og starfsfólkið og allt farið vel.
Hafa aldrei lent í öðru eins
Justin segir að á þeim átján mánuðum sem staðurinn hefur verið rekinn í Litlatúni í Garðabæ hafi ekkert á borð við atvikið á laugardagskvöldið gerst.
„Við gerum mjög sjaldan mistök og við fáum sjaldan kvartanir. Almennt er kúnnahópurinn okkar mjög jákvæður og ánægður. Þetta voru klárlega ekki venjuleg viðbrögð,“ segir Justin