Innlent

Rútu­bíl­stjórinn sem festist tvisvar á jóla­dag með réttar­stöðu sak­bornings

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rútan festist í tvígang á jóladag og greint var frá því að samskipti björgunarsveita við bílstjórann hefðu gengið stirðlega.
Rútan festist í tvígang á jóladag og greint var frá því að samskipti björgunarsveita við bílstjórann hefðu gengið stirðlega. AÐSEND

Rútubílstjórinn sem festi bifreið sína tvívegis á jóladag eftir að hafa hunsað lokanir var yfirheyrður af lögreglu og er með réttarstöðu sakbornings. Sök hans er að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir málið nú liggja hjá ákæruvaldinu eða vera á leiðinni þangað.

Rútan varð fyrst föst seinni part jóladags á þjóðveginum við Pétursey, austan við Sólheimasand í Vestur-Skaftafellssýslu. Vegurinn hafði þá verið lokaður frá því um morguninn. 

Björgunarsveitarmönnum tókst að losa rútuna en um kvöldið festist hún aftur, þá við Dyrhólaey. Þá tók lengri tíma að losa rútuna, sem þveraði veginn með þeim afleiðingum að björgunarsveitafólk átti erfitt með að komast leiða sinna.

Í frétt Vísis frá 27. desember er haft eftir Guðjóni Ármanni Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Hópbíla, að bílstjórinn og leiðsögumaðurinn um borð hefðu ekki séð merkingar um lokun.

„Þeir voru í raun og veru bara að koma fólkinu í gistingu. Fólkið er núna í góðu yfirlæti. Það slasaðist enginn eða ekki neitt slíkt. Það er stefnt að því að koma þeim heim í dag eða á morgun,“ sagði Guðjón.

Fréttablaðið hefur eftir Jóni Hermannssyni, aðgerðastjóra björgunarsveita á Suðurlandi, sem stýrði aðgerðum þennan dag, að svo virðist sem forsvarsmenn Hópbíla hafi hins vegar orðið margasaga um hvað gerðist.

Hann hafi sjálfur orðið vitni að því þegar lögregla hringdi í bílstjóran eftir að hann festist fyrst og sagt honum að snúa við. Þá hafi hann verið varaður við við Seljalandsfoss og beðinn um að halda ekki af stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×