Á aðeins einum stað á láglendi mældist meiri kuldi í dag. Það var á Sandskeiði en þar fór frostið niður í 25,5 gráður. Á einni hálendisstöð mældist meira frost, Kolku við Blöndulón, 27,4 gráður.

Þeir sem lögðu í göngutúr um Víðidalinn í kuldanum í dag voru verðlaunaðir með ægifegurð náttúrunnar. Hrímþoka og raunar ísþoka læddist niður með Elliðaánum og lagðist yfir umhverfi ánna. Svo þétt var þokan um tíma að á göngustíg skammt frá ánni sást varla á milli ljósastaura.

Talað er um hrímþoku þegar frostið nær allt að tuttugu stigum en ísþoku þegar frost fer niður fyrir tuttugu stig. Frostið í Víðidal hélst meira og minna undir tuttugu stigum í dag. Það var aðeins rétt eftir miðnætti sem „hlýnaði“ örlítið þegar frostið mældist 19,3 gráður.

Þótt vatnshiti Elliðaánna sé vart nema rétt yfir frostmarki þessa dagana, sennilega innan við hálf gráða, er það hátt yfir þeim lofthita sem mældist í Víðidalnum. Rakinn sem steig upp af ánni lagðist svo eins og flórsykur yfir dalinn þegar hann hrímaði trjágróður og grös.

Sólin kórónaði svo dýrðina með geislum sínum og minnti á að hún er farin að hækka á lofti og lengja daginn. Þannig var þessi dagur ellefu mínútum lengri í Reykjavík en á vetrarsólstöðum. Á morgun, gamlársdag, helst sólin nærri þremur mínútum lengur á lofti en í dag og nær þrjár gráður upp á sjóndeildarhringinn, fer örlítið hærra en í dag.
