Innlent

Jóla­góð­verk á Akur­eyri: „Ég opnaði bréfið við kassann og fór strax að gráta“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Hér má sjá Katrínu Sylvíu með bréfið góða og peningseðilinn.
Hér má sjá Katrínu Sylvíu með bréfið góða og peningseðilinn. Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net

„Þetta var svo ótrúlega fallegt. Ég er bara 18 ára og var svakalega brugðið,“ segir Katrín Sylvía Brynjarsdóttir starfsmaður Bónuss á Akureyri. Stuttu fyrir jól fékk Katrín óvæntan glaðning, frá viðskiptavini verslunarinnar sem hún þekkir ekki neitt en hefur þó oft afgreitt.

Þessi hugljúfa saga af jólagóðverki birtist á dögunum á vef Akureyri.net.

Katrín Sylvía var að afgreiða konu á kassanum í Bónus og þegar konan hafði lokið við að ganga frá vörunum rétti hún Katrínu Sylvíu umslag og hélt svo sína leið. 

Katrín Sylvía segist hreinlega hafa farið að gráta við afgreiðslukassann þegar hún opnaði umslagið og sá hvað leyndist í því.

„Í umslaginu var ótrúlega fallegt bréf, þar sem hún hrósaði mér mikið, og 10 þúsund króna seðill!“

Í bréfinu þakkaði konan Katrínu Sylvíu fyrir allt sem hún hefði gert á árinu til að gera heiminn og umhverfið í kringum sig betra. Þar stóð meðal annars:

„Ég skynja að þú hefur gert margt sem snertir aðra á jákvæðan hátt. Mun meira en þú gerir þér grein fyrir.“

Katrín Sylvía segist hafa fundið út nafn konunnar í kjölfarið og hringt í hana. Þá kom í ljós að Katrín Sylvía var ekki eini kassastarfsmaðurinn á Akureyri sem hafði fengið umslag frá hinni gjafmildu konu, heldur var hún sú fimmta í röðinni.

„Konan sagði að ég væri besti kassastarfsmaður sem hún hefði hitt og ég ætti þetta skilið. Hún hrósaði mér svo mikið, sagði að kúnnarnir skiptu mig greinilega öllu máli og það er alveg rétt hjá henni; mér finnst skipta öllu máli að koma vel fram við viðskiptavinina.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×