Innlent

Mæðgin á­kærð eftir að þremur milljónum var stolið af reikningi eldri manns

Atli Ísleifsson skrifar
Hrísey að sumarlagi.
Hrísey að sumarlagi. Vísir/Atli

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur ákært sex manns fyrir að hafa ýmist svikið samtals þrjár milljónir króna af bankareikningi karlmanns á níræðisaldri í Hrísey eða peningaþvætti með því að hafa notið ávinnings af fjársvikunum.

Í ákærunni kemur fram að einn hinna ákærðu sé ákærður fyrir að hafa svikið samtals rúmlega 2,8 milljónir króna af reikningi mannsins með því að millifæra 2,3 milljónir inn á reikning annars hinna ákærðu. Þá segir að hann hafi notað debetkort mannsins til að taka út um 330 þúsund krónur í reiðufé í hraðbönkum á Akureyri og til að greiða 184 þúsund krónur fyrir vörur og verslunum bæði á Akureyri og í Hrísey.

Sá sem ákærður er fyrir svikin er sagður hafa stolið debetkortinu af manninum þegar hann dvaldi tímabundið á heimili mannsins í Hrísey í júlí 2020.

Hin fimm eru ákærð fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við fjármunum, eða öðrum ávinningi, og að þeim hafi átt að vera vera ljóst að uppruna peninganna mætti rekja til bankareiknings mannsins. Þau hafi afhent fjármunina eða nýtt þá, þrátt fyrir að hafa vitað að um ólöglega fengið fé hafi verið að ræða.

Móðir þess sem sveik út fé af bankareikningi mannsins er ein þeirra sem ákærð er í málinu. Hún á að hafa tekið við bifhjóli sem greiðslu upp í skuld frá enn öðrum sem ákærður er í málinu. Henni hafi þó átt að vera kunnugt um að um ávinning af brotastarfsemi hafi verið að ræða.

Þess er krafist að ákærðu greiði manninum fjárhæðina sem stolið var og þá er þess krafist að bifhjólið, sem er af gerðinni Yamaha YZF, verði gert upptækt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×