Innlent

„Við áttum okkur ekki alveg á því hvað gerðist“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mynd af rútunni eftir að hún festist við Pétursey.
Mynd af rútunni eftir að hún festist við Pétursey. Aðsend

Framkvæmdastjóri Hópbíla segir forsvarsmenn fyrirtækisins eiga eftir að ná betra tali af bílstjóranum sem festi rútu sína í tvígang um helgina eftir að hafa ekki virt vegalokanir. Verið sé að afla allra gagna málsins.

Á jóladag festi rútubílstjóri rútu sína í tvígang í Mýrdalshrepp eftir að hafa ekki virt lokanir. Samskipti bílstjórans við björgunarsveitina reyndust ekki góð en um borð voru þrjátíu erlendir ferðamenn. 

Rútan festist fyrst seinni partinn á jóladag á þjóðveginum við Pétursey, austan við Sólheimasand í Vestur-Skaftafellssýslu, en veginum hafði þá verið lokað síðan um morguninn. Björgunarsveitarmönnum tókst síðan að losa rútuna. 

Seinna um kvöldið festist rútan aftur, þá nærri Hótel Dyrhólaey. Lengri tíma tók að losa hana þá en hún þveraði veginn og olli því að björgunarsveitarfólk átti erfitt með að komast leiða sinna. 

Í samtali við fréttastofu segir Guðjón Ármann Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hópbíla, að hann viti lítið um málið eins og er, enn sé verið að afla gagna um það. 

„Þetta er í okkar hefðbundna verkferli þegar eitthvað svona gerist. Þannig við erum bara að taka það saman,“ segir Guðjón.

Guðjón Ármann Guðjónsson er framkvæmdastjóri Hópbíla.

Aðspurður segir hann að bílstjórar fyrirtækisins eigi að fara eftir vegalokunum og tilmælum björgunarsveita. 

„Þannig við áttum okkur ekki alveg á því hvað gerðist. Við eigum eftir að ná betra tali af bílstjóranum. Þetta er bara allt í ferli. Ef vegur er lokaður þá er hann lokaður,“ segir Guðjón.

Uppfært klukkan 11:38:

Eftir að hafa fengið frekari upplýsingar um málið segir Guðjón að bílstjórinn og leiðsögumaðurinn hafi ekki séð merkingar um lokunina og því lent í þessari klemmu. 

„Þeir voru í raun og veru bara að koma fólkinu í gistingu. Fólkið er núna í góðu yfirlæti. Það slasaðist enginn eða ekki neitt slíkt. Það er stefnt að því að koma þeim heim í dag eða á morgun,“ segir Guðjón.


Tengdar fréttir

Virti ekki lokanir og þverar þjóð­veginn

Rútubílstjóri virti ekki lokanir og festi rútu á þjóðveginum við Pétursey, austan við Sólheimasand í Vestur-Skaftafellssýslu seinnipartinn í dag. Rútan situr enn föst og stirð samskipti hafa verið á milli björgunarsveitar og bílstjóra rútunnar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×