Fótbolti

Lewandowski í þriggja leikja bann eftir misheppnaða áfrýjun Barcelona

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lewandowski mun ekki spila deildarleik fyrir Barcelona fyrr en í lok janúar.
Lewandowski mun ekki spila deildarleik fyrir Barcelona fyrr en í lok janúar. David S. Bustamante/Soccrates/Getty Images

Pólski framherjinn Robert Lewandowski mun ekki leika með Barcelona á Spáni næstu vikur. Félaginu tókst ekki að fá þriggja deildarleikja banni hann hnekkt.

Lewandowski fékk tvö gul spjöld og þar með rautt í leik Barcelona við Osasuna fyrir HM-hléið og missti í kjölfarið stjórn á skapi sínu. Hann sýndi dómara leiksins bendingu þar sem hann setti fingur sinn að nefinu.

Eitthvað fór það fyrir brjóst spænskra knattspyrnuyfirvalda sem lengdu bann Lewandowski í þrjá leiki. Börsungar áfrýjuðu þeim dómi til efra dómsstigs en fengu honum ekki hnekkt fyrir íþróttadómstóli Spánar.

Lewandowski verður því í banni í næstu þremur deildarleikjum Barcelona gegn Espanyol, Atlético Madrid og Getafe.

Missirinn er mikill en sá pólski hefur skorað þrettán mörk í fjórtán deildarleikjum á leiktíðinni. Barcelona er á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með 37 stig, tveimur á undan Real Madrid.

Liðið mætir Espanyol í grannaslag í fyrsta leik eftir hlé á gamlársdag. Lewandowski spilar ekki með liðinu í deildinni fyrr en 29. janúar gegn Girona vegna bannsins.

Hann getur aftur á móti spilað með liðinu í spænska ofurbikarnum sem fram fer í Riyadh í Sádi-Arabíu um miðjan janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×