Innlent

Snjóþekja á stofnvegum og fólk hvatt til að fara varlega

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Vegagerðin gerir ráð fyrir því að umferðin gæti gengið hægt nú í morgunsárið.
Vegagerðin gerir ráð fyrir því að umferðin gæti gengið hægt nú í morgunsárið. Vísir/Vilhelm

Þjóðvegurinn frá Hvolsvelli og til Víkur í Mýrdal er lokaður vegna veðurs en spáð var mikilli snjókomu á svæðinu í nótt. Vegurinn á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs var lokaður fyrir almennri umferð í gær en Vegagerðin var þar með fylgdarakstur.

Þá voru tvö hús austan Víkur, að Höfðabrekku, rýmd vegna mögulegrar snjóflóðahættu klukkan sjö í gærkvöldi en um er að ræða hótelrými og þjónustuhús og voru gestir færðir í annað húsnæði á vegum sama hótels, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. 

Í höfuðborginni hefur aðeins bæst í snjóinn frá því í gær og að sögn Vegagerðar er snjóþekja á stofnvegum, þar á meðal á Reykjanesbraut og því ætti fólk að fara varlega í umferðinni sem gæti orðið hægari en vanalega. 

Þæfingur er á Hellisheiðinni og í Þrengslum og unnið að mokstri og Grindavíkurvegur er lokaður vegna fannfergis og fastra bíla, næstu upplýsingar vegna hans koma um klukkan hálf tíu. Þungfært er á Suðurstrandarvegi og ófært um Mosfellsheiði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×