Innlent

Erla fagnar sáttum 46 árum eftir varðhaldið langa

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Erla Bolladóttir 
Erla Bolladóttir  Vísir/Vilhelm

Erla Bolladóttir segir táknrænt að ná sáttum við íslenska ríkið í dag. Nákvæmlega 46 ár eru síðan hún var látin laus úr gæsluvarðhaldi.

„Þann 22. desember fyrir 46 árum var ég látin laus úr gæsluvarðhaldi og núna er verið að láta mig lausa úr þessu máli,“ segir Erla í samtali við fréttastofu.

Líkt og greint var frá í dag hefur íslenska ríkið gert samkomulag við Erlu vegna gæsluvarðhalds sem hún sætti í tengslum við hvarf Guðmundar og Geirfinns. Erla fær 32 milljónir króna í miskabætur vegna 232 daga gæsluvarðhalds.

Samkvæmt samkomulaginu greiðir íslenska ríkið Erlu Bolladóttur miskabætur fyrir gæsluvarðhaldið á sama grundvelli og sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmdar í Landsrétti, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Erla segist hafa frétt af samkomulaginu í dag, líkt og flestir. „Ég er enn svolítið dofin. Þetta er mikill og stór áfangi,“ segir Erla, sem lítur svo á að málinu sé nú formlega lokið.

Í yfirlýsingu forsætisráðherra biður Katrín Jakobsdóttir Erlu einnig afsökunar á þeirri meðferð sem hún mátti þola og afleiðingum hennar. Yfirlýsing Katrínar var hluti samkomulagsins.

Samkomulagið við Erlu Bolladóttur tekur eingöngu til gæsluvarðhalds vegna rannsóknar á hvarfi Geirfinns Einarssonar og nær ekki til dóms vegna rangra sakargifta enda stendur hann óhaggaður. Þann fjórtánda september síðastliðinn hafnaði Endurupptökudómur endurupptökubeiðni Erlu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×