Í þessum nýjasta þætti af Kúnst var kíkt í heimsókn á Jólasýninguna og rætt við bæði sýningarstjóra og fjóra listamenn sem taka þátt.
Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan:
Ungir og upprennandi með eldri kanónum
Listamennirnir umræddu eru þau Svanhildur Gréta, Sigurður Árni, Elísabet Anna og Guðlaug Mía sem öll nálgast myndlistina á sinn einstaka hátt. Þetta er í fimmta sinn sem jólasýningin er haldin en hún er nú með öðru sniði en áður. Hópnum hefur verið fækkað úr yfir 100 listamönnum í 32.
„Það sem gerist við að fækka hópnum þá fá líka einstök verk að njóta sín betur í salnum heldur en ella. Vanalega hafa verið algjörlega þaktir veggir þannig þetta er aðeins önnur ásýnd en bara mjög skemmtilegt,“ segir Olga og bætir við:
„Það sem hefur verið með einkennandi fyrir þessa sýningu er þessi ofboðslega skemmtilega breidd, þannig þú ert bæði að kynnast ungum og upprennandi listamönnum og að setja þá í samtal við þessa eldri sem hafa verið lengur í bransanum.“
Innsýn í hugarheim og vinnustofu
Í tengslum við sýninguna var ákveðið að gefa út bók með viðtölum við alla listamenn og ljósmyndara sem taka þátt í ár ásamt myndum úr vinnustofum þeirra.
„Maður veit það sjálfur þegar maður hefur fengið þau forréttindi að heimsækja ólíka myndlistarmenn í ólíkar vinnustofur hvað þetta er rosalegur heimur.
Þetta gefur svo ofboðslega skemmtilega innsýn í hvernig myndlistarmaðurinn starfar og í hvaða samhengi hann vinnur,“
segir Olga.