Innlent

Ekki viss um að heimilis­lausir hafi ekki vitað af opnun skýla

Kjartan Kjartansson skrifar
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs.
Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs. Vísir/Vilhelm

Aldrei kom annað til greina en að halda neyðarskýlum borgarinnar fyrir heimilislausa opnum í óveðri sem gerði um helgina, að sögn formanns borgarráðs. Hann segir leitt ef upplýsingar um opnunartíma skýlanna hafi ekki komist til skila en efast um að heimlislausir hafi ekki vitað af honum.

Ragnar Erling Hermannsson, heimilislaus maður, sakaði borgaryfirvöld um „versta ofbeldi sem fyrirfinnst“ þegar til hafi staðið að vísa fólki úr neyðarskýli á Granda á laugardagsmorgun. Slík skýli eru alla jafna lokuð frá klukkan 10 til 17 á daginn en borgin ákvað að hafa þau opin allan sólarhringinn á föstudag vegna kuldans og veðursins. Samskiptastjóri borgarinnar sagði Vísi á laugardag að skýlin yrði opin allan sólarhringinn þá og í gær.

Spurður út í gagnrýnina í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og starfandi borgarstjóri, að neyðaráætlun hafi verið virkjuð vegna kuldans og veðursins til þess að heimilislausir þyrftu ekki að vera úti allan daginn. 

„Það átti að vera öllum ljóst að þau yrði opin á meðan veðrið er svona vont, á meðan það er svona kalt. Eins og þessi snjóbylur var þá kom aldrei til greina annað en að hafa þetta neyðarskýli opið og þau öll,“ sagði Einar sem viðurkenndi að mögulega hafi verið einhvers konar óreiða varðandi upplýsingagjöf á einhverjum tímapunkti.

Allavega þeir sem sækja þessa þjónustu virtust ekki vita af þessu.

„Ég er ekkert viss um að það hafi verið alveg þannig,“ sagði Einar.

Geti ákveðið að koma sér í sviðsljósið

Sagðist Einar ekki ætla að saka neinn um lygar en benti á að heimilislausir karlar hefðu háð harða baráttu fyrir því að neyðarskýlin séu opin allan sólarhringinn.

„Svo er það bara þannig að menn geta misskilið og menn geta ákveðið að koma sér í sviðsljósið til að vekja athygli á sínum málstað. Það er bara mjög leitt ef upplýsingarnar hafa ekki komist skýrt til skýra. En það var alveg skýrt að við ætluðum að tryggja það að þeir þyrftu ekki að vera úti í þessu vonda veðri og þannig verður það þangað til þessu kuldakasti er lokið,“ sagði Einar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×