Innlent

Ferða­menn streyma í Bláa lónið en Grinda­víkur­vegur lokaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bláa lónið er fallegt á vetrardegi sem sumardegi. Í dag er hins vegar ófært í Bláa lónið.
Bláa lónið er fallegt á vetrardegi sem sumardegi. Í dag er hins vegar ófært í Bláa lónið. Vísir/Vilhelm

Lögregla og björgunarsveitarfólk á Suðurnesjum hefur ekki undan við að vísa ferðamönnum frá Grindavíkurvegi sem nú er lokaður vegna ófærðar. Lögregla hvetur fólk til að vera ekki á ferð á Suðurnesjum að ástæðulausu.

Um fjörutíu bílar eru fastir í ófærðinni á Grindavíkurvegi. Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn vill árétta að vegurinn sé lokaður.

„Fólk streymir hingað að og ætlar að skella sér í Bláa lónið,“ segir Ásmundur Rúnar. Hann biðlar til fólks að halda kyrru heima fyrir.

„Færðin er almennt þung á Suðurnesjum. Við beinum til fólks að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu,“ segir Ásmundur Rúnar.

Veðrið hafi ekki komið aftan að fólki á Suðurnesjum en ferðamenn virðast margir hverjir halda sínum plönum, óháð veðri. Margir hverjir ekki meðvitaðir um lokun Grindavíkurvegar.

„Fjölmargir ferðamenn eru með einhver plön og það er stöðugur straumur af fólki á leiðinni í Bláa lónið. Það er bara búið að ákveða að það verði að fara í Bláa lónið.“

Grindavíkurvegur er lokaður frá Reykjanesbraut þar sem lögregla og björgunarsveitir standa vaktina.

„Fólk streymir enn að. Það veldur erfiðleikum að þurfa að vísa fólki frá.“

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu vegna færðarinnar

Lögreglan á Suðurnesjum vill koma því á framfæri við ökumenn að Grindavíkurvegur er lokaður þessa stundina vegna ófærðar. Töluverður fjöldi ökutækja er þar fastur í ófærð og eru viðbragðsaðilar að vinna á vettvangi við að aðstoða ökumenn. Almennt um færð á vegum er það að frétta að þungfært er víða á Suðurnesjum og fólk beðið að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Að lokum hvetur lögreglan fólk með að fylgjast með veðurspám og uppfærðum upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir

Þrjátíu bílar fastir á Grindavíkurvegi

Verið er að kalla út allar björgunarsveitir á Suðurnesjum og ræsa þar aðgerðarstjórn vegna þrjátíu bíla sem fastir eru á Grindavíkurvegi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×