Í tilkynningu frá lögreglu segir að til ágreinings hafi komið milli tveggja félaga þar sem annar þeirra hafi fallið niður stiga og fengið skurð á enni. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans.
Í dagbók lögreglu, þar sem sagt er frá verkefnum lögreglu í gærkvöldi og í nótt, segir einnig frá því að um klukkan 22 í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um mikla fíkniefnalykt frá íbúð í hverfi 110 í Reykjavík. Þar hafi tveir menn verið handteknir á vettvangi grunaðir um vörslu og sölu fíkniefna. Voru þeir fluttir í fangageymslu og hald lagt á fíkniefnin.
Um miðnætti var svo tilkynnt um slys í Mosfellsbæ þar sem komið hafði verið að meðvitundarlausum manni við biðstöð Strætó. Virðist sem að maðurinn hafi dottið aftur fyrir sig og blæddi frá höfði. Þegar sjúkralið og lögregla komu á vettvang hafði maðurinn rankað við sér, en hann var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á Bráðadeild.