Innlent

Ellefu ára rit­höfundur með sína fyrstu skáld­sögu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Halla María Lárusdóttir, 11 ára rithöfundur með bókina sína, „Menið hennar ömmu“.
Halla María Lárusdóttir, 11 ára rithöfundur með bókina sína, „Menið hennar ömmu“. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þrátt fyrir að Halla María Lárusdóttir sé ekki nema 11 ára gömul þá er hún búin að gefa út sína fyrstu skáldsögu, auk þess að myndskreyta bókina. Sögupersóna bókarinnar, Kolbrún lendir í allskyns ævintýrum í sögunni þar sem hálsmen spilar stórt hlutverk.

Halla María, sem er búsett í Reykjavík kemur stundum austur fyrir fjall og þá finnst henni skemmtilegast að fara í nýja miðbæinn á Selfossi. Bókin hennar heitir "Menið hennar ömmu“ og hefur fengið mjög góðar viðtökur en hún fæst í verslunum Nettó .

„Bókin fjallar um hana Kolbrúnu, sem fær töframen frá ömmu sinni og það getur hjálpað henni á alla vegu, nema það getur ekki breytt hegðun fólks og svo lendir hún í allskyns ævintýrum. Bókin er spennandi og er ætluð aldrinum sjö til tólf ára,“ segir Halla María og bætir við. „Ég hef alltaf haft gaman af því að skrifa bækur alveg frá því að ég man eftir mér.Ég skrifa bara sjálf heima og ég teikna myndir en pabbi minn hjálpar mér að setja myndirnar inn og að gera forsíðu og baksíðu.“

Foreldrar Höllu Maríu eru að rifna úr stolti af stelpunni sinni.

„Við ákváðum að láta prenta sex eintök af sögunni og ákváðum bara að gefa fjölskyldunni en ég á systur, sem er mjög orkumikil manneskja, sem heitir Oddný og er bóndi í Berufirði og framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda. Hún las bókina og hugsaði, „Þessi bók verður að koma út“,“ segir Lára Björg Björnsdóttir mamma Höllu Maríu.

Bókin hennar Höllu Maríu fæst í Nettó, bæði netversluninni og í verslun Nettó í Mjódd, Granda, Selfossi, Krossmóa, Grindavík, Borgarnesi, Glerártorgi, Egilsstöðum og á Höfn.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×