Það var aðfaranótt 8. desember, sem eldurinn kom upp í rafmagnsskápi í einni af borholum Selfossveitna í Þorleifskoti í Laugardælum rétt við Selfoss. Við það datt holan út úr kerfinu.
Til að spara heita vatnið var strax gripið til þess ráðs í gær að loka Sundhöll Selfoss til að spara heita vatnið og var viðbragðsáætlun Selfossveitna í kjölfarið virkjuð.
„En á meðan þetta gengur yfir þá náttúrulega þurfum við að skerða þjónustuna og þar að meðal þurfti að loka sundlauginni hérna,“ segir Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri hjá Selfossveitum.
En þarf að loka á einhverjum fleiri stöðum?
„Vonandi ekki, vonandi er þetta nóg og við erum bara stöðugt að meta stöðuna en eins og ég segi, við erum enn þá að reyna að koma þessari holu inn,“ segir Sigurður Þór.

Fastagestir sundlaugarinnar eru að sjálfsögðu súrir með lokun laugarinnar, það hefur forstöðumaður laugarinnar orðið var við.
„Þeir eru kannski pínu súrir að komast ekki í heita pottinn og að synda en fólk er að sýna þessu góðan skilning og allir að róa í sömu átt að þetta gangi vel,“ segir Magnús Gísli Sveinsson, forstöðumaður Sundhallar Selfoss.

Ákveðið hefur verið að Sundhöll Selfoss verði lokuð um helgina en staðan verður tekin á málinu á ný á mánudaginn.