Innlent

Ók á veg­far­enda, hjól­reiða­mann og hund og fær fjögurra mánaða dóm

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Landsréttur staðfesti fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manninum. 
Landsréttur staðfesti fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manninum.  Vísir/Vilhelm

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli karlmanns sem ók í veg fyrir annan bíl og í kjölfarið á gangandi vegfarenda, hjólreiðamann og hund hans. Landsréttur sýknaði manninn af ákæru um að hafa verið óhæfur til að stjórna bílnum vegna áhrifa slævandi lyfja og sagði almannahættu ekki hafa stafað af.

Maðurinn var í Héraðsdómi Norðurlands eystra dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökuréttindum í hálft ár vegna málsins en ákæruvaldið fór fram á að refsing mannsins yrði þyngd í Landsrétti og að hann yrði sviptur ökuréttindum til lengri tíma.

Atvikið sem maðurinn var dæmdur fyrir átti sér stað í ágúst 2019 við Glerárgötu á Akureyri. Hann hafi misst stjórn á bílnum, ekið upp á umferðareyju og aftur út á götuna í veg fyrir annan bíl. Þaðan hafi bíll mannsins hafnað uppi á gangstétt og á gangandi vegfarenda, hjólreiðamann og hund hans.

Hjólreiðamaðurinn kastaðist þá upp í loft og flaug nokkra metra út í limgerði og hundur hans drapst. Gangandi vegfarandinn hlaut heilahristing við áreksturinn á meðan hjólreiðamaðurinn hlaut meðal annars herðablaðsbrot, spjaldbeinsbrot, mjaðmarbeinsbrot, mörg rifbrot og rof á þvagblöðru.

Við meðferð málsins í héraðsdómi var spiluð hljóð- og myndbandsupptaka af slysinu auk þess sem upptökur af skýrslum sjö vitna voru spilaðar. Þá var jafnframt spiluð upptaka úr búkmyndavél lögreglu þar sem rætt var við vitni á vettvangi og upptaka úr öryggismyndavélum.

Sýknaður að hluta

Í dómi héraðsdóms hafði því verið haldið fram að maðurinn væri óhæfur til að stjórna bíl sínum örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja og án nægilegrar aðgæslu auk þess sem hann var á allt að 110 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var 50 kílómetrar á klukkustund. Bæði héraðsdómur og Landsréttur sýknuðu þó manninn af ákæru um að hafa verið óhæfur til að stjórna bílnum vegna áhrifa slævandi lyfja. 

Maðurinn hafi raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stofnað í háska lífi og heilsu gangandi vegfarandans, hjólreiðamannsins og þriggja farþega í bílnum sem hann ók í veg fyrir. Landsréttur sagði þó ekki hægt að slá því á föstu að maðurinn hafi með akstri sínum stofnað óákveðnum hagsmunum ótiltekins fjölda vegfarenda í hættu svo almannahætta hafi stafað af. Var hann því sýknaður af ákæru í þeim lið.

Maðurinn þarf að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 846.750 krónur, þar með talin 790.500 krónur í málsvarnarlaun verjanda síns. Hann hafði áður þurft að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns í héraði, 1.078.985 krónur, og 217.166 krónur í annan sakarkostnað.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.