Innlent

Í­búar í hjól­hýsa­byggð berjast fyrir varan­legri stað­setningu

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Geirdís hefur beitt sér fyrir því að borgin geri varanlegar ráðstafanir fyrir fólk sem kýs og vill búa í hjólhýsi, húsbíl eða í smáhýsi.
Geirdís hefur beitt sér fyrir því að borgin geri varanlegar ráðstafanir fyrir fólk sem kýs og vill búa í hjólhýsi, húsbíl eða í smáhýsi. Vísir/Bjarni

Íbúar í hjólhýsabyggðinni í Laugardal berjast fyrir því að fá varanlega staðsetningu fyrir byggðina. Þau fá ekki að skrá lögheimili sitt og skora á borgaryfirvöld að finna langtímalausnir fyrir þá sem kjósa þetta búsetuúrræði.

Geirdís Hanna Kristjánsdóttir er 48 ára gömul. Hún er öryrki og hefur búið í hjólhýsi í Laugardal í tvö og hálft ár. Hún segir það fela í sér ýmsar skerðingar að vera hvergi skráð til heimilis. Til að að mynda fær hún ekki svokallaða heimilisuppbót frá Tryggingastofnun. Geirdís hefur beitt sér fyrir því að borgin geri varanlegar ráðstafanir fyrir fólk sem kýs og vill búa í hjólhýsi, húsbíl eða í smáhýsi. 

„Þetta er réttindabarátta. Við búum í okkar eigin húsnæði. Það er eins og það sé skömm að því að búa á hjólum. Ég vill bara geta haft varanlegan stað. Ég vill geta skráð heimilisfangið mitt þar og fengið að fullnýta réttindi mín sem íslenskur ríkisborgari,“ segir Geirdís. 

Ætlar ekki aftur á leigumarkaðinn

Bergþóra hefur búið í hjólhýsi í fimm ár.Vísir/Bjarni

Bergþóra Pálsdóttur hefur búið í hjólhýsinu sínu síðustu fimm ár en leigði áður íbúð. Hún segist ekki vera að leitast eftir því að komast aftur inn á leigumarkaðinn.

„Nei, ég er ekki að því, alls ekki, ég hef bara ekki efni á því. Mér finnst ekkert eðlilegt að leigja íbúð á 300 þúsund. Ég er með 243 þúsund í mánaðarlaun. Ég veit ekki alveg hvernig ég ætti að fara að því.“

Skorar á borgarstjórn

Skilaboð Geirdísar eru skýr.„Við erum náttúrulega bara fólk. Rétt eins og þetta fólk sem situr í borgarstjórn. Mér finnst allt í lagi að þau sjái sóma sinn í þvi að koma og tala við okkur á jafningjagrundvelli. Sjái bara hvernig við búum og heyri það, að þetta eru heimilin okkar sem að um ræðir. Og þetta er það sem við kjósum og það sem við viljum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×