Innlent

„Fólk sem fórnar öllu til að geta staðið í skilum og á svo varla fyrir mat“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Ragnar bendir á að forsætisráðuneytið sé búið að vera með tvo starfshópa í gangi til að koma böndum á leigumarkaðinn og koma í veg fyrir að leiguverð sé keyrt upp umfram vísitölu. Það hafi ekki skilað sér.
Ragnar bendir á að forsætisráðuneytið sé búið að vera með tvo starfshópa í gangi til að koma böndum á leigumarkaðinn og koma í veg fyrir að leiguverð sé keyrt upp umfram vísitölu. Það hafi ekki skilað sér. Vísir/vilhelm

„Þetta er einfaldlega raunveruleikinn hjá fólki á leigumarkaði. Þetta er svo langt frá því að vera eina dæmið,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Vísi. Ragnar birti fyrr í dag færslu á facebook þar sem hann vakti athygli á dapurlegri stöðu 65 ára íslenskrar konu sem sér sig tilneydda til að segja upp samningi sínum við Ölmu leigufélag þar sem mánaðarleigan hefur rokið upp úr öllu valdi.

Í færslunni segist Ragnar hafa fengið sláandi póst frá konunni, sem er sjúklingur og hefur ávallt staðið í skilum við leigufélagið.

„Hún heitir Brynja og er 65 ára. Alma býður henni nýjan 12 mánaða leigusamning sem mun taka gildi frá byrjun febrúar á næsta ári með hækkun upp á 75.247kr. á mánuði miðað við vísitölu í nóvember, sem var 555,6 en er komin 560,9. Það þýðir að hækkunin sem henni stendur til boða verður 78.347kr. á mánuði frá og með febrúar næstkomandi en fer að öllum líkindum hækkandi fram að þeim tíma.“

Ragnar segir konuna nú vera nauðbeygða til að flytja út þar sem útilokað er fyrir hana að standa undir þessari hækkun.

„Til að setja þetta í samhengi þyrftum við í verkalýðshreyfingunni að hækka laun um 133.000kr. á mánuði til að hún gæti staðið undir þessum kostnaðarauka. Og þá er allt annað eftir sem hækkað hefur langt úr hófi fram. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið hvað harðast gegn því að leigubremsu verði komið á til að sporna við gengdarlausri græðgi og því miskunnarleysi sem viðgengst á leigumarkaði.“

Ógeðfelld framkoma

„Þetta er bara svo átakanlegt. Hún er 65 ára gömul og er að reyna að finna sér aðra íbúð því annars lendir hún bara á götunni. Hún stendur ekki undir þessum hækkunum, og hún gerði það varla fyrir,“ segir Ragnar í samtali við Vísi fyrr í kvöld.

„Alltaf þegar maður heldur að það sé að nást einhver árangur þá er það skotið niður, annaðhvort af stjórnvöldum eða Sjálfstæðisflokknum. Eða þá að það koma inn nýir eigendur inn í svona félög sem ætla sér síðan að nota þetta eins og hverja aðra braskfjárfestingu, þar sem verið er að spila með líf fólks. Þetta er ekki boðlegt í þessu ríka og oft ágæta samfélagi sem við búum í.“

Ragnar segist hafa fengið send fleiri dæmi frá leigjendum sem standa frammi fyrir svipuðum hækkunum og konan sem um ræðir.

„Allt er þetta fólk sem fórnar öllu til að geta staðið í skilum og á svo varla fyrir mat. Svo fá þau þetta yfir sig. Ég er bara verulega hugsi yfir því hvernig samfélag þetta er sem við búum í. Þetta er svo ógeðfellt.“

Ragnar bendir á að forsætisráðuneytið sé búið að vera með tvo starfshópa í gangi til að koma böndum á leigumarkaðinn og koma í veg fyrir að leiguverð sé keyrt upp umfram vísitölu. Það hafi ekki skilað sér.

„Forsætisráðherra verður einfaldlega að svara því hversu langt þetta á að fá að ganga. Stjórnvöld geta ekki vikið sér endalaust undan ábyrgð. Fólki er misboðið og það er ekki að ástæðulausu. Það verður að koma meiri stuðningur til þessara hópa og setja lög sem koma í veg fyrir þetta.“

Hér má sjá færslu Ragnars í heild sinni.

Facebook færsla Ragnars

Ég fékk póst frá leigutaka hjá Ölmu leigufélagi sem er vægast sagt sláandi.

Hún heitir Brynja og er 65 ára. Alma býður henni nýjan 12 mánaða leigusamning sem mun taka gildi frá byrjun febrúar á næsta ári með hækkun upp á 75.247kr. á mánuði miðað við vísitölu í nóvember, sem var 555,6 en er komin 560,9. Það þýðir að hækkunin sem henni stendur til boða verður 78.347kr. á mánuði frá og með febrúar næstkomandi en fer að öllum líkindum hækkandi fram að þeim tíma.

Ég ræddi við Brynju seinnipartinn í dag og var samtalið og saga hennar sláandi en því miður ekki einsdæmi. Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta þetta þar sem hún er nauðbeygð til að flytja út þar sem útilokað er fyrir hana að standa undir þessari hækkun.

Brynja er sjúklingur en hefur ávalt staðið í skilum við leigufélagið eins og flestir gera með því að borga leiguna fyrst og lifa á hafragraut megin hluta mánaðarins.

Til að setja þetta í samhengi þyrftum við í verkalýðshreyfingunni að hækka laun um 133.000kr. á mánuði til að hún gæti staðið undir þessum kostnaðarauka. Og þá er allt annað eftir sem hækkað hefur langt úr hófi fram.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið hvað harðast gegn því að leigubremsu verði komið á til að sporna við gengdarlausri græðgi og því miskunnarleysi sem viðgengst á leigumarkaði.

Sjá samskipti leigufélagsins við Brynju sem fékk heldur dapurlega jólagjöf frá leigufélaginu eins og hún orðar það sjálf:

Sæl Brynja,

Nú líður að endurnýjun leigusamnings þíns vegna Hverfisgötu 59, íbúð 102. Núverandi leigusamningur rennur út 31.01.2023 næst komandi. Við viljum endilega heyra frá þér hvort þú hafir hug á því að endurnýja leigusamninginn þinn frá 01.02.2023.

Við getum boðið þér endurnýjun á leigusamningi með grunnleiguverð kr. 325.000.- og upphafsvísitölu 555,6. Athugaðu að upphafsvísitala samnings miðast við nóvember mánuð 2022.

Greiðsla skv. núverandi leigusamningi í nóvember er kr. 249.753,-

Við bjóðum upp á tímabundna leigusamninga til 12 mánaða eða langtímasamninga til allt að 60 mánaða. Innheimt er álag ofan á grunnleiguverð langtímasamninga sem ákvarðast af lengd samnings. Meðfylgjandi er skjal með frekari útskýringum.

Við biðjum þig að láta okkur vita sem fyrst eða í síðasta lagi 01.01.2023 hvort þú komir til með að endurnýja samninginn þinn.

Vertu endilega í sambandi við okkur ef þú hefur frekari spurningar eða ef eitthvað er óljóst.

Hlökkum til að heyra frá þér.

Með kveðju,

Starfsfólk Ölmu

Ég velti því stundum fyrir mér hvert í fjandanum við erum komin sem samfélag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.