Lífið

Íbúarnir buðust til að vera bakland fyrir nýju fjölskylduna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hrafnhildur Árnadóttir flutti til Þorlákshafnar fyrir sjö árum ásamt eiginmanni og tveimur sonum.
Hrafnhildur Árnadóttir flutti til Þorlákshafnar fyrir sjö árum ásamt eiginmanni og tveimur sonum. Arnar Halldórsson

„Við fluttum hingað þekkjandi engan hérna. Við höfðum aldrei komið hingað áður,“ segir Hrafnhildur Árnadóttir, sem flutti til Þorlákshafnar fyrir sjö árum ásamt manni sínum, Sigurði Steinari Ásgeirssyni, og tveimur sonum.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 má heyra hversvegna fjölskyldur velja að flytja þangað úr borginni. Hrafnhildur segir að þar gátu þau keypt einbýlishús með stórum garði og tvöföldum bílskúr fyrir andvirði tveggja herbergja blokkaríbúðar í Reykjavík.

Þau Hrafnhildur og Sigurður Steinar sóttu bæði vinnu til Reykjavíkur fyrstu fimm árin en það reyndist minna mál en þau héldu.

Þau Hrafnhildur Árnadóttir og Sigurður Steinar Ásgeirsson eru áhugafólk um fjallahjólreiðar. Þau eru að byggja upp fyrirtækið Frostþurrkun í Þorlákshöfn.Úr einkasafni

„Við vorum mjög hrædd við það þegar við fluttum af því að við höfðum ekkert bakland hérna,“ segir Hrafnhildur en strákarnir voru þá báðir á leikskólaaldri.

„Þá kom það okkur svo mjög á óvart að það var svo mikið af fólki sem bauðst til að hjálpa til ef að við myndum festast vegna veðurs eða ef við kæmumst ekki á réttum tíma til að sækja strákana í leikskólann,“ segir Hrafnhildur.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir flutti aftur heim til Þorlákshafnar með fjölskylduna fyrir fjórum árum. 

Ása Berglind Hjálmarsdóttir er bæjarfulltrúi í Ölfusi.Arnar Halldórsson

„Ég gafst bara dálítið upp á höfuðborgarsvæðinu og vildi komast aftur í þessa ró og frelsi fyrir börnin og þessa nálægð við allt,“ segir hún.

„Við náttúrlega erum hálfgert úthverfi af höfuðborgarsvæðinu. Maður er ekki nema þrjátíu mínútur yfir fjallið,“ segir Ása Berglind en margir íbúanna aka á milli til vinnu.

Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss.Arnar Halldórsson

Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss, segir það stefnu bæjaryfirvalda að nota ekki lóðasölu sem tekjustofn. Þá sé gatnagerðargjöldum stillt í hóf.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir íbúum fjölga hratt. Verið sé að byggja nýjan leikskóla og áformað að stækka grunnskólann.

Þáttinn Um land allt má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+

Hér má sjá sex mínútna kafla um Þorlákshöfn sem valkost barnafjölskyldna:

Hér má heyra sögu íbúanna af því þegar þéttbýli hóf á myndast í Þorlákshöfn:


Tengdar fréttir

Færeyska skipaútgerðin með átján starfsmenn í Þorlákshöfn

Færeyska skipaútgerðin Smyril Line er komin með átján starfsmenn í Þorlákshöfn. Þar segja menn að lesa megi æðaslátt efnahagslífsins úr flutningunum. Ráðmenn sveitarfélagsins vonast til að það styttist í farþegaferju til Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×