Stíf fundarhöld hafa einkennt þessa viku í viðræðum samtaka atvinnulífsins við Samflot iðn- og tæknifólks annars vegar og við starfsgreinasambandið hins vegar. Stefnt var að því að ljúka viðræðum fyrir lok nóvembermánaðar en nú er ljóst að það tókst ekki og var fundi slitið í gærkvöldi án kjarasamnings.
VR stéttarfélag tók ekki þátt í viðræðum gærdagsins en ekki er talið útilokað að félagið komi að viðræðum dagsins með einum eða öðrum hætti. VR sleit viðræðunum við SA fyrir nokkrum dögum.
Kjarninn greindi frá því í gær að Starfsgreinasambandið hafi að megninu til samþykkt tilboð sem hljóðaði upp á 4% launahækkun með 20 000 króna gólfi en 40 000 króna þaki. Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS vildi ekki staðfesta þetta í samtali við fréttastofu í gær og sagði sambandið ekki horfa til prósentuhækkana heldur krónutöluhækkana. Vilhjálmur sagði ekki tímabært að úttala sig um krónur og aura á þessu stigi málsins og að staðan væri viðkvæm.