Lífið

Christine McVi­e er látin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
McVie árið 2018.
McVie árið 2018. Lester Cohen/Getty

Enska tónlistarkonan Christine McVie, einn af meðlimum hljómsveitarinnar Fleetwood Mac, er látin. Hún var 79 ára. 

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu McVie, sem Sky-fréttastofan vísar í, segir að McVie hafi látist á spítala í dag, eftir skammvinn veikindi. Fjölskylda hennar hafi verið hjá henni þegar hún lést. 

„Við biðjum ykkur að virða friðhelgi fjölskyldunnar á þessum sársaukafullu tímum og biðjum alla að hafa Christine í hjarta sér og minnast lífs þessarar ótrúlegu manneskju og tónlistarkonu sem var dáð um allan heim. Hvíl í friði, Christine McVie,“ segir í tilkynningunni. 

McVie gekk til liðs við Fleetwood Mac árið 1970, þremur árum eftir stofnun sveitarinnar. Hún var einn aðalsöngvara sveitarinnar og lék einnig á hljómborð. Eftir hana liggja einnig þrjár sólóplötur.

McVie var tekin inn í heiðurshöll rokkara í Bandaríkjunum (Rock and Roll Hall of Fame) árið 1998, sem meðlimur í Fleetwood Mac. Sama ár ákvað hún að hætta í sveitinni. Hún gekk þó aftur til liðs við hana árið 2014.

Eitt þekktasta lag Fleetwood Mac sem samið var af McVie er lagið Don't Stop. Lagið þykir afar upplífgandi og grípandi, en til marks um það má nefna að Bill Clinton notaðist mikið við lagið í kosningabaráttu sinni í forsetkosningunum í Bandaríkjunum árið 1992, sem hann vann.  


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.