Mexíkó féll úr keppni á minnsta mun

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mexíkóar voru grátlega nálægt því að komast áfram. Cesar Montes sést hér liggja á vellinum í leikslok.
Mexíkóar voru grátlega nálægt því að komast áfram. Cesar Montes sést hér liggja á vellinum í leikslok. Vísir/Getty

Mexíkó vann 2-1 sigur á Sádi Arabíu á heimsmeistaramótinu í Katar í kvöld. Sigurinn var þó súrsætur því Mexíkó hefði þurft eitt mark í viðbót til að hirða annað sætið af Pólverjum og tryggja sér þar með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Fyrir leikinn í kvöld var staðan sú að Sádi Arabar færu áfram með sigri en Mexíkó var í neðsta sæti riðilsins en átti þó möguleika á að koma sér áfram ynnu þeir sigur á Sádum og úrslit í leik Póllands og Argentínu yrðu þeim hagstæð.

Í fyrri hálfleik voru Mexíkóar betri en tókst þó ekki að skora frekar en Sádum. Staðan í hálfleik 0-0 líkt og í hinum leik riðilsins og það þýddi að Pólland og Argentína voru á leið áfram.

Uriel Antuna fagnar hér marki í kvöld sem síðar var dæmt af vegna rangstöðu.Vísir/Getty

Kvöldið var þó bara rétt að byrja þarna. Argentína komst í 1-0 strax í byrjun seinni hálfleiks og á fimm mínútna kafla í síðari hálfleik skoruðu Henry Martin og Luis Chavez fyrir Mexíkóa og spennan orðin gríðarleg.

Þegar Argentína komst síðan í 2-0 þurftu Mexíkóar aðeins eitt mark í viðbót til að komast í annað sætið, annaðhvort að þeir myndu sjálfir skora eða Argentínumenn bæta við. 

Mexíkó og Pólland voru þá hnífjöfn í riðlinum, báðar þjóðir með fjögur stig, markatalan 2-2 hjá báðum þjóðum og innbyrðisstaðan sömuleiðis. Pólverjar höfðu þó yfirhöndina þar sem þeir höfðu fengið færri gul spjöld í keppninni og voru því á leið áfram með færri refsistig.

Raul Jimenez svekktur í leikslok.Vísir/Getty

Mexíkóar lögðu allt í sölurnar og fengu færi til að skora. Tvö mörk voru dæmd af þeim vegna rangstöðu á meðan Argentínumenn voru í nokkur skipti mjög nálægt því að bæta við marki.

Í uppbótartíma skoruðu hins vegar Sádi Arabar og Mexíkóar því með slakari markatölu en Pólland. Þeir hefðu þó aðeins þurft eitt mark í viðbót til að ná öðru sætinu og hefðu þá verið ofar en Pólland á fleiri mörkum skoruðum.

Það mark kom þó aldrei og bæði lið sátu eftir með sárt ennið, sérstaklega Mexíkó sem voru grátlega nálægt því að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.