Innlent

Fjögur ár fyrir að nauðga eigin­­konu sinni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í fjögurra ára fangelsi. 
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í fjögurra ára fangelsi.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir brot í nánu sambandi, nauðgun, líkamsárásir, eignaspjöll og akstur undir áhrifum. Þá þarf maðurinn að greiða eiginkonu sinni tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur. 

Maðurinn var ákærður í fimm liðum og sakfelldur í þeim öllum. Fyrsta brotið átti sér stað í mars á þessu ári þegar maðurinn spennti upp framhurð og afturhurð bifreiðar í eigu eiginkonu sinnar. Báðar hurðirnar skemmdust í kjölfar þess. Nokkrum dögum síðar var hann tekinn undir áhrifum ávana- og fíkniefna en í blóði hans mældist kókaín. 

Slóst við sambýlismenn

Þann 24. apríl lenti maðurinn í slagsmálum við þrjá aðra menn á gangi í fjölbýlishúsi sem þeir bjuggu allir í. Þegar lögregla kom á árásarstaðinn var maðurinn blóðugur í framan, með skurð á höfði og undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Hann sagði mennina þrjá hafa ráðist á sig að fyrra bragði en mennirnir héldu fram hinu gagnstæða. 

Að sögn eins árásarþola hafði hinn dæmdi brugðist illa við því þegar honum var neitað um að fá lánaða rafrettu. Slagsmál brutust þá út milli þeirra tveggja sem tveir aðrir menn reyndu að stöðva en urðu sjálfir fyrir barðinu á hinum dæmda. 

Að mati dóms voru allir þrír brotaþola trúverðugir en ýmislegt sem þeir sökuðu manninn um þótti ósannað. Dómurinn hafnaði þeirri málsvörn mannsins um að háttsemi hans sé refsilaus en hann sagðist einungis hafa beitt neyðarvörn. 

Sat fyrir eiginkonu sinni

Þann 30. apríl síðastliðinn veittist maðurinn að eiginkonu sinni í bíl með ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann tók af henni farsíma og þrýsti henni upp að bílhurðinni, tosaði í kjól hennar og klóraði hana á bringuna. 

Maðurinn hafði setið fyrir konunni fyrir utan vinnustað hennar og krafðist þess að fá að skoða síma hennar. Fram kemur í dómnum að hann hafi verið öfundsjúkur og talið hana hafa verið að hitta aðra menn á meðan þau voru enn í sambandi. Á þessum tíma stóðu þau í skilnaði. Nokkur vitni urðu að árásinni sem komu konunni til aðstoðar. 

Út frá frásögn konunnar og vitna og skýrslum frá lögreglumönnum og læknum var maðurinn sakfelldur fyrir líkamsárásina. 

Þvingaði hana til samfara

Nokkrum dögum síðar, þann 10. maí, barst lögreglu tilkynning frá vegfaranda sem kom að eiginkonu mannsins sem kvaðst hafa verið beitt ofbeldi. Maðurinn hafði þá ógnað henni með hnífi og þvingað hana til samfara í bíl sínum. 

Dómnum þótti sannað að maðurinn hefði gerst sekur um brot í nánu sambandi og nauðgun. DNA-sýni úr manninum fannst á klæðum hans og reyndist vera sæði. Framburður mannsins þótti ótrúverðugur, á köflum yfirgengilegur og óstöðugur. 

Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir brot sín. Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt óslitið frá 11. maí á þessu ári. Hann þarf að greiða eiginkonu sinni tvær og hálfa milljón króna í skaðabætur og greiða allan sakarkostnað málsins, samtals 6,4 milljónir króna. 

Dóminn má lesa hér að neðan.

Tengd skjölAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.